Ég er fullur eftirvæntingar

Daníel Þór Ingason sækir að vörn ÍBV.
Daníel Þór Ingason sækir að vörn ÍBV. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Áhugi forráðamanna Ribe Esbjerg vaknaði í fyrra en þá afþakkaði ég vegna þess að komið var nærri keppnistímabilinu og ég var að hefja nám. Fyrirvarinn var of stuttur. Forráðamenn liðsins höfðu síðan aftur samband við mig snemma á þessu ári og þá ákvað ég að stíga skrefið, enda afar spenntur,“ sagði landsliðsmaðurinn í handknattleik Daníel Þór Ingason um vistaskipti sín í sumar er hann gengur til liðs við danska úrvalsdeildarliðið Ribe Esbjerg.

Daníel Þór hefur skrifað undir þriggja ára samning við Jótana sem hyggjast komast í allra fremstu röð í dönskum handknattleik með sitt lið. Ribe Esbjerg hafnaði í níunda sæti í dönsku úrvalsdeildinni í vor og var hársbreidd frá áttunda og síðasta sætinu inn í úrslitakeppnina um meistaratitilinn.

Daníel Þór verður þriðji Íslendingurinn í herbúðum Ribe Esbjerg á næsta keppnistímabili. Fyrir eru Gunnar Steinn Jónsson og Rúnar Kárason sem báðir komu til liðsins á síðasta sumri.

„Ég ræddi vel við Rúnar og Gunnar áður en ég tók ákvörðun um að skrifa undir samninginn. Þeir láta vel af öllu hjá félaginu. Aðstæður eru fyrsta flokks. Ég er viss um að með þessu er ég að stíga rétt skref á mínum ferli. Ég er fullur eftirvæntingar að breyta til og spreyta mig í dönsku úrvalsdeildinni,“ sagði Daníel sem hefur slegið í gegn með Haukum á tveimur síðustu keppnistímabilum og unnið sér inn sæti í landsliðinu. Hann lék m.a. með landsliðinu á HM í Þýskalandi í janúar sl. og á alls 28 A-landsleiki að baki. Sennilegt er að Daníel Þór verði í landsliðshópnum sem tekur þátt í tveimur síðustu leikjum landsliðsins í undankeppni EM, gegn Grikkjum ytra og við Tyrki hér heima, í næsta mánuði.

Sjá allt viðtalið við Daníel á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert