Félagar Ágústs skoruðu lítið

Ágúst Elí Björgvinsson er kominn með Sävehof í úrslitaeinvígið um …
Ágúst Elí Björgvinsson er kominn með Sävehof í úrslitaeinvígið um sænska meistaratitilinn.

Ágúst Elí Björgvinsson stóð fyrir sínu í marki Sävehof þegar liðið mætti Alingsås í öðrum leik liðanna í úrslitaeinvíginu um sænska meistaratitilinn í handbolta í dag.

Alingsås vann hins vegar leikinn af öryggi, 22:16, og er staðan í einvíginu því orðin jöfn, 1:1, og hafa báðir leikirnir unnist á útivelli.

Ágúst Elí var með 32% markvörslu í marki Sävehof þar sem hann varði 8 af 25 skotum sem hann fékk á sig, þar af 1 víti. Liðsfélögum hans gekk hins vegar bölvanlega að skora en staðan var 9:8 fyrir Alingsås í hálfleik. Sävehof skoraði ekki mark í tæpar tíu mínútur um miðjan seinni hálfleik og Alingsås komst meðal annars í 17:12 og 20:13.

Liðin mætast í þriðja sinn á föstudaginn á heimavelli Alingsås en vinna þarf þrjá leiki til að verða meistari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert