Allir í vínrauðu á Selfossi

Selfyssingar fagna með stuðningsmönnum sínum.
Selfyssingar fagna með stuðningsmönnum sínum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það ríkir gríðarlega spenna og eftirvænting á Selfossi fyrir leik karlaliðs Selfoss í handbolta gegn Haukum en liðin eigast við í fjórða úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitilinn í Olís-deildinni. Með sigri í kvöld tryggja Selfyssingar sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta skipti í sögu félagsins.

Miðasala á leikinn hófst í gær og varð uppselt á hálftíma en aðeins er hægt að selja 600 miða í Hleðsluhöllina. Það komast því miklu færri á leikinn en vildu.

„Það er stór dagur í dag. Það eru allir kátir hér á Selfossi og það er mikil tilhlökkun fyrir leiknum,“ sagði Þórir Haraldsson, formaður handknattleiksdeildar Selfoss, í viðtali við mbl.is.

Spurður hvort Selfyssingar séu með einhverjar ráðstafanir til að gefa fólki tækifæri á að koma saman og fylgjast með leiknum sagði Þórir:

„Það verður boðið upp á það víða hér á Selfossi að horfa á leikinn. Það verður barnahorn hjá okkur þannig að börnin geta komið í skólastofuna sem er tengd við íþróttahúsið og séð útsendingu frá leiknum. Veitingastaðir hér á Selfossi verða með leikinn í beinni útsendingu, til að mynda í golfskálanum, Kaffi Selfossi og fleiri stöðum. Það var uppselt á leikinn á innan við hálftíma í gær. Við seldum 600 miða bara einn, tveir og þrír. Því miður komum við ekki fleiri inn í húsið. Það urðu ansi margir frá að hverfa í gær,“ sagði Þórir.

Selfossfánum flaggað út um allan bæ

Haukur Þrastarson reynir að brjóta sér leið fram hjá Darra …
Haukur Þrastarson reynir að brjóta sér leið fram hjá Darra Aronssyni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórir segir varla sé um annað talað á Selfossi en leikinn.

„Þegar farið er um bæinn þá er flaggað Selfossfánum úti um allt, bæði fyrir utan heimili fólks og hjá fyrirtækjum. Það eru vínrauðir dagar bæði hjá leikskólunum og skólum og sveitarfélagið Árbær sendi út boð á alla sína starfsmenn, um 700 manns, um að það væri vínrauður dagur í dag. Nú vona ég bara að leikmenn og við sem erum að stússast í kringum þetta njótum leiksins í kvöld. Það er mjög gott með þetta einvígi við Haukana og einnig við Valsmennina að liðin hafa spilað góðan handbolta. Það hefur ekki verið neitt vesen og það hefur ekki verið hægt að sjá neinn ljótan blett,“ sagði Þórir.

Flautað verður til leiks í Hleðsluhöllinni klukkan 19.30 í kvöld og verður leikurinn í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert