Fáum góðan og öflugan þjálfara

Kveður Patrekur Selfyssinga með titli í kvöld?
Kveður Patrekur Selfyssinga með titli í kvöld? mbl.is/Kristinn Magnússon

Patrekur Jóhannesson gæti stjórnað Selfoss-liðinu í síðasta skipti í kvöld en vinni Selfyssingar lið Hauka í fjórða úrslitaleik liðanna í Olís-deild karla í Hleðsluhöllinni á Selfossi í kvöld tryggja þeir sér Íslandsmeistaratitilinn.

Patrekur hverfur til nýrra starfa í sumar en hann tekur þá við þjálfun danska úrvalsdeildarliðsins Skjern. Í janúar gerði Selfoss samning við Hannes Jón Jónsson um að hann tæki við þjálfun liðsins í sumar en í apríl rifti Hannes samningi sínum við Selfyssinga og gerði tveggja ára samning við þýska liðið Bietigheim.

„Við erum ekki búnir að finna þjálfara,“ sagði Þórir Haraldsson, formaður handknattleiksdeildar Selfoss, við mbl.is í dag.

„Við erum að leita að toppþjálfara. Þeir eru kannski ekki margir til og flestir þeir bestu eru með samninga. Við höfum verið að fara yfir sviðið og ræða við menn en við erum ekki komnir með neinn enn þá.  Við réðum Hannes Jón tímanlega til þess að vera ekki í þessari stöðu eins og við erum í núna en vonandi tekst okkur að finna hæfan þjálfara sem allra fyrst. Við höfum verið uppteknir síðustu vikurnar í úrslitakeppninni en við höfum svo sem engar áhyggjur. Við fáum góðan og öflugan þjálfara til liðs við okkur,“ sagði Þórir við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert