Ólafur fær sigursælan þjálfara

Ólafur Gústafsson.
Ólafur Gústafsson. Ljós­mynd/​kif.dk

Landsliðsmaðurinn Ólafur Gústafsson hefur fengið nýjan þjálfara hjá danska úrvalsdeildarliðinu KIF Kolding.

Svíinn Ulf Sivertsson var í dag ráðinn þjálfari Kolding til næstu tveggja ára en hann þjálfaði liðið frá 2001 til 2009 með afar góðum árangri. Liðið varð fimm sinnum danskur meistari undir hans stjórn og varð fjórum sinnum bikarmeistari. Hann kemur til Kolding frá sænska liðinu Helsingborg sem hann hefur þjálfað undanfarin ár.

Sivertsson er ætlað koma Kolding í fremstu röð á nýjan leik en í fyrsta sinn í 35 ár átti liðið það á hættu að falla úr úrvalsdeildinni. Ólafur og félagar fóru í umspil við Tönder um að halda sæti sínu í deildinni og Kolding hafði betur í því einvígi.

Ólafur gekk í raðir Kolding frá Stjörnunni fyrir tveimur árum og gerði þá þriggja ára samning við félagið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert