Pólverji til Stjörnunnar og frekari liðsstyrkur

Leikmenn Stjörnunnar á nýliðnu tímabili.
Leikmenn Stjörnunnar á nýliðnu tímabili. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason.

Kvennalið Stjörnunnar í handbolta hefur fengið góðan liðsstyrk fyrir næsta tímabil en pólski markvörðurinn Klaudia Powaga hefur samið við Garðabæjarliðið til næstu tveggja ára.

„Powaga er 22 ára gömul og kemur frá pólska liðinu Start Elblag sem lenti í 4. sæti í pólsku úrvalsdeildinni í ár. Hún er leikmaður B-landsliðs Póllands og er af mörgum talin framtíðarmarkmaður pólska landsliðsins,“ segir í fréttatilkynningu frá Stjörnunni.

Stjarnan hefur einnig samið við unga og efnilega leikmenn fyrir næsta tímabil. Hin 19 ára gamla Ólöf Ásta Arnþórsdóttir er komin til liðsins en hún spilaði með Fjölni á síðasta tímabili og varð markahæsti leikmaðurinn í Grill 66-deildinni með 185 mörk.

Ída Bjarklind Magnúsdóttir, 19 ára, er komin frá Selfossi og er talin með efnilegri skyttum landsins. Hún hefur verið viðloðandi yngri landslið Íslands og spilar með B-landsliði Íslands.

Þá er Hildur Guðjónsdóttir komin frá FH en hún er 17 ára gömul og er efnilegur útileikmaður.

Klaudia Powaga.
Klaudia Powaga. Ljósmynd/Stjarnan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert