„Teddi Ponza“ til Gróttu

Theodór Ingi Pálmason í leik með Fjölni.
Theodór Ingi Pálmason í leik með Fjölni. mbl.is/Golli

Línu- og varnarbuffið Theodór Ingi Pálmason, betur þekktur sem Teddi Ponza, hefur skrifað undir samning við handknattleiksdeild Gróttu og mun spila með liðinu í Grill-66-deildinni í vetur. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Gróttu.

„Theodór spilaði seinast með Fjölni í Olís-deildinni tímabilið 2017-2018 en spilaði ekkert í vetur. Hann hefur einnig leikið með FH í efstu deild og er því hokinn af reynslu og mikill fengur fyrir ungt Gróttu-lið,“ segir í fréttatilkynningunni en Grótta féll úr Olís-deildinni í vor.

Stjórn handknattleiksdeildar er ánægð með að samningar hafi náðst við Tedda og sagði Þórir Jökull við undirskriftina að afar sterkt væri að næla í jafn reynslumikinn leikmann og Tedda og hlökkum við mikið til að fylgjast með honum í vetur.

Sjálfur var Teddi brattur og spenntur fyrir komandi vetri og sagði við undirskriftina:

„Þegar Sérfræðingurinn (Arnar Daði, þjálfari) heyrði í mér með að taka skóna af hillunni og taka slaginn með Gróttunni varð ég strax spenntur fyrir því. Ég hef mikla trú á honum sem þjálfara og það verður gaman að taka slaginn með Gróttunni í vetur. Hópurinn er góður og markmiðið verður klárlega að fara beint upp í hóp þeirra bestu.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert