Alfreð stendur við síðara loforðið

Alfreð Gíslason þakkar fyrir sig í Sparkassen-höllinni um síðustu helgi.
Alfreð Gíslason þakkar fyrir sig í Sparkassen-höllinni um síðustu helgi. Ljósmynd/Sascha Klan

Eftir að hafa stýrt uppeldisfélagi sínu KA til sigurs á Íslandsmótinu í handknattleik árið 1997 flutti Alfreð Gíslason með fjölskyldu sinni til Þýskalands til að taka við liði Hameln.

Lofaði hann þá Köru eiginkonu sinni að þau yrðu í Þýskalandi í tvö ár. Tuttugu og tveimur árum síðar lætur hann af störfum hjá Kiel að eigin ósk og segist ætla að láta gott heita í félagsliðaþjálfun.

„Þá stóð til að vera í tvö ár í Þýskalandi og ég er því kominn tuttugu ár fram yfir þann tíma. Ég gaf konunni loforð um að við yrðum bara í tvö ár. En handboltinn hefur alltaf verið mitt áhugamál og ég hef fengið tækifæri til að vera hjá stórum félagsliðum. Fyrst hjá Essen sem leikmaður en síðar hjá Magdeburg, Gummersbach og Kiel sem eru þau lið þar sem hefðin er mest í Þýskalandi. Ég er stoltur af því að hafa fengið tækifæri til að vinna fyrir þessi félög. Þessi ellefu ár hjá Kiel hafa verið ótrúleg en að mörgu leyti erfið. Ég hélt tryggð við félagið þegar á móti blés og sé ekki eftir því,“ sagði Alfreð Gíslason þegar Morgunblaðið ræddi við hann í Kiel að keppnistímabilinu loknu.

Losnar úr hamsturshjólinu

Á leikmannaferli Alfreðs fengu þau hjónin tækfiæri til að búa bæði í Þýskalandi og einnig á Spáni þegar hann lék með Bidasoa við góðan orðstír. Tíminn erlendis er því nokkuð stór hluti af þeirra ævi en Alfreð verður sextugur á árinu. Spurður um hvort Íslandstaugin sé römm segir Alfreð svo vera og tíðari Íslandsheimsóknir verði einn af kostum þess að hætta þjálfun félagsliða.

„Já já. Elsti sonur minn og barnabörnin eru til dæmis heima á Íslandi. Vandamálið hingað til hefur verið það að maður er að vinna í þýsku Bundesligunni og þar er svo lítið frí að maður kemst eiginlega ekkert heim. Ég hef varla komist heim að sumri almennilega og til dæmis ekki verið heima í ágúst í tuttugu og tvö ár. Eitt af því skemmtilega sem framundan er verður að geta gert meira af því að fara til Íslands. Það verður visst frelsi að losna úr þessu hamsturshjóli sem Bundesligan er. Er það önnur af tveimur meginástæðum þess að ég ákvað að hætta en hin er sú að ég hafði lofað konunni að hætta í deildinni sextugur. Ég stóð ekki við fyrra loforðið en stend við hitt núna,“ útskýrði Alfreð.

Sjá ítarlegt viðtal við Alfreð á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert