Hvíli sig á sólinni og styðji landsliðið í dag

Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég vona að fólk geti hvílt sig á sólinni í tvo tíma, komið í höllina og farið svo heim að grilla,“ sagði Guðjón Valur Sigurðsson, landsliðsfyrirliði í handknattleik, í samtali við mbl.is í aðdraganda leiks Íslands og Tyrklands í undankeppni EM sem fram fer í Laugardalshöllinni og hefst klukkan 16 í dag.

Ísland marði jafntefli við Grikkland á útivelli á miðvikudag og er ekki öruggt með sæti á EM, en má engu að síður tapa með tíu mörkum á morgun og samt komast áfram eftir að hafa unnið Tyrki með ellefu mörkum úti fyrr í vetur. Það er þó ekki nein hækja sem liðið ætlar að styðjast við í leiknum.

„Nei, ég get lofað þér því að við ætlum ekki að reyna að tapa með sem minnstum mun. Við ætlum að vinna þennan leik,“ sagði Guðjón Valur einbeittur og á von á erfiðum leik þótt leikurinn úti hafi unnist stórt.

„Við búum okkur undir hörkuleik. Þeir gáfu Norður-Makedóníumönnum hörkuleik núna á dögunum og við þurfum að gíra okkur upp í að spila okkar besta leik. Við gerum ráð fyrir fullri mótstöðu frá þeim, en það á ekki að skipta nokkru máli. Við ætlum að spila okkar leik og standa okkur betur en við gerðum á miðvikudaginn,“ sagði Guðjón Valur.

Fyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson er mikill leiðtogi.
Fyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson er mikill leiðtogi.

Sýna að menn séu verðugir íslenska landsliðsins

Á miðvikudag marði íslenska liðið jafntefli á útivelli við Grikkland, sem Ísland vann með 14 marka mun á heimavelli í vetur. Það er því ekkert gefið í þessu, en kom eitthvað á óvart í þessum leik gegn Grikkjum?

„Við bjuggum okkur undir hörkuleik en það kom okkur kannski á óvart að við náðum ekki að spila eins og við lögðum upp með. Okkur tókst ekki að framfylgja okkar leikplani eins og við vildum og létum stoppa okkur auðveldlega í sókninni og unnum ekki nógu marga bolta. Við þurfum að vinna í því og það er það sem maður er ósáttastur við eftir leikinn. En úr því sem komið var var rosalega gott að ná í stig,“ sagði Guðjón Valur.

Íslenska liðið var nokkuð gagnrýnt eftir leikinn og hefur þjálfarateymið einnig farið vel yfir hlutina.

„Við fengum nokkrar pillur, eðlilega, enda áttum við það skilið og ég skil það mjög vel að þjálfararnir hafi ekki verið ánægðir með okkur. En jafnframt höfum við leikmenn nú tækifæri til að bæta okkar leik og sýna að við séum þess verðugir að vera í íslenska landsliðinu.“

Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. Ljósmynd/Uros Hocevar

Góðar tilfinningar bærast í brjóstinu

Leikurinn í dag er síðasti leikur tímabilsins, sem hefur verið langt og strangt hjá leikmönnum liðsins. Þar er Guðjón Valur ekki undanskilinn, en hann var í lykilhlutverki hjá Rhein-Neckar Löwen í þýsku 1. deildinni sem einnig komst áfram í Meistaradeildinni. Það vilja allir fara brosandi út í sumarfríið eftir góðan leik.

„Ég hef fengið að spila síðasta leik tímabilsins hérna í Laugardalshöllinni í mörg ár. Mér þykir alveg ótrúlega vænt um það og það eru góðar tilfinningar sem bærast í brjóstinu núna. Ég hlakka bara til,“ sagði Guðjón Valur Sigurðsson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert