Þjálfarinn með hausverk eftir sannfærandi sigur

Farseðlinum á HM fagnað í Laugardalshöllinni í gær.
Farseðlinum á HM fagnað í Laugardalshöllinni í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik tryggði sér sæti í lokakeppni EM í Austurríki, Noregi og Svíþjóð þegar liðið vann öruggan tíu marka sigur gegn Tyrklandi í lokaleik sínum í 3. riðli undankeppninnar í Laugardalshöll í gær en leiknum lauk með 32:22-sigri íslenska liðsins.

Liðin voru lengi í gang í Höllinni í gær en Elvar Örn Jónsson skoraði fyrsta mark leiksins á 4. mínútu og íslenska liðið fylgdi því marki vel eftir og náði fjögurra marka forskoti eftir tíu mínútna leik. Tyrkir neituðu að gefast upp og gerðu vel í að halda í við íslenska liðið og var staðan 12:9, Íslandi í vil, í hálfleik.

Íslenska liðið byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti, náði fimm marka forskoti, eftir 40. mínútna og og hélt áfram að auka forskot sitt jafnt og þétt. Munurinn á liðunum var sex mörk þegar tíu mínútur voru til leiksloka og þá setti íslenska liðið aftur í annan gír og var munurinn á liðunum tíu mörk þegar sjö mínútur voru til leiksloka. Þann mun náði Tyrkir ekki að brúa og íslenska liðið fagnaði þægilegum sigri.

Bjarki og Viktor frábærir

Íslenska liðið var langt frá því að vera sannfærandi í fyrri hálfleik og ef ekki hefði verið fyrri Viktor Gísla Hallgrímsson, sem átti stórleik í marki íslenska liðsins, hefði liðið að öllum líkindum verið undir í hálfleik. Sóknarleikurinn var heilt yfir slakur, liðinu gekk illa að finna opnanir í villtri vörn Tyrkjanna, og stórskyttur liðsins náðu sér ekki á strik. Þá fór Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði liðsins, illa með nokkur upplögð dauðafæri. Viktor varði tvívegis í röð frá Tyrkjunum undir lok fyrri hálfleiks í stöðunni 11:9 og eftir á að hyggja voru það algjörar lykilvörslur í leiknum.

Í seinni hálfleik mætti liðið mun sterkari til leiks með Bjarka Má Elísson fremstan í flokki en hann leysti Guðjón Val Sigurðsson af hólmi í vinstra horninu. Viktor Gísli hélt áfram að verja frá Tyrkjunum og átti hverja stoðsendinguna á fætur annarri fram völlinn á Bjarka Má sem skoraði nánast undantekningalaust en hann endaði með 11 mörk í leiknum og var markahæsti leikmaður íslenska liðsins. Þá gekk sóknarleikurin betur í seinni hálfleik en þegar allt kemur til alls voru það fyrst og fremst hraðaupphlaupin sem skiluðu íslenskum sigri í gær.

Sjá allt um leikinn á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert