Ísak aftur til FH

Ísak Rafnsson í leik með FH gegn ÍBV.
Ísak Rafnsson í leik með FH gegn ÍBV. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Handknattleiksmaðurinn Ísak Rafnsson hefur ákveðið að snúa heim úr atvinnumennskunni og mun ganga í raðir FH á nýjan leik og spila með því í Olís-deildinni á næstu leiktíð. Þetta staðfesti hann við mbl.is í dag.

Ísak yfirgaf FH fyrir síðustu leiktíð og gekk til liðs við austurríska liðið Schwaz Handball Tirol. Hann var lánaður til austurríska liðsins með möguleika á framlengingu eða fara til annars liðs en nú er ljóst að hann er á heimleið og tekur upp þráðinn með uppeldisfélagi sínu.

„Ég er bara spenntur að spila í FH búningnum á nýjan leik. Við erum komnir með mjög sterkt lið og það verður gaman að spila í þessari  rosalegu sterku Olís-deild,“ sagði Ísak í samtali við mbl.is í dag.

Ísak, sem er 27 ára gamall, er öflug skytta og sterkur varnarmaður sem mun styrkja FH-liðið á næstu leiktíð undir stjórn Sigursteins Arndal, sem er tekinn við þjálfun liðsins af Halldóri Jóhanni Sigfússyni.

FH-ingar hafa fengið stórskyttuna Egil Magnússon frá Stjörnunni til liðs við sig og þá er markvörður frá þýska liðinu Magdeburg á leið til liðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert