Thea og Sara upp um deild

Thea Imani Sturludóttir
Thea Imani Sturludóttir Ljósmynd/Robert Spasovski

Landsliðskonan Thea Imani Sturludóttir mun leika í norsku úrvalsdeildinni í handbolta á komandi leiktíð eftir að hafa skrifað undir samning við Oppsal.

Fylkiskonan hefur síðustu tvö ár leikið með Volda, undir stjórn Halldórs Stefáns Haraldssonar, og skoraði 72 mörk í 1. deild á síðustu leiktíð þegar liðið var nálægt því að fara í umspil um sæti í úrvalsdeild.

Oppsal endaði í 8. sæti af 12 liðum norsku úrvalsdeildarinnar í fyrra. Endre B. Fintland, þjálfari liðsins, fagnar því að hafa fengið hina 22 ára gömlu Theu í hópinn:

„Ég er mjög ánægður með þessa undirskrift og er viss um að Thea muni smellpassa inn í hópinn. Nú þegar Thea er komin er hópurinn fyrir næstu leiktíð að verða klár.“

Volda hefur aftur á móti fengið til sín annan íslenskan leikmann, hina 19 ára gömlu Söru Dögg Hjaltadóttur. Sara Dögg lék með Fjölni áður en hún fór til Noregs en hún hefur þar leikið með Kongsvinger í 2. deildinni síðustu tvær leiktíðir. Þessi leikstjórnandi, sem leikið hefur með yngri landsliðum Íslands, gerði samning til tveggja ára við Volda. sindris@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert