EHF staðfestir þátttöku fimm íslenskra liða

Íslandsmeistaralið Selfoss hefur þátttöku í 3. umferð EHF-keppninnar.
Íslandsmeistaralið Selfoss hefur þátttöku í 3. umferð EHF-keppninnar. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Evrópska handknattleikssambandið hefur staðfest að fimm íslensk félagslið muni taka þátt á Evrópumótunum í handknattleik á komandi leiktíð.

Íslandsmeistarar Selfoss, FH og Haukar taka þátt í EHF-keppninni í karlaflokki, karlalið Vals tekur þátt í Áskorendakeppni Evrópu og Íslandsmeistarar Vals í kvennaflokki spila í EHF-keppninni.

Selfyssingar hefja leik í 2. umferð í EHF-keppninni og mæta þar liði sem kemst áfram úr 1. umferðinni. Þeir leikir fara fram 5./6. október og 12./13. október. Selfossi var meinað að spila í Meistaradeildinni vegna þess að liðið gat ekki leikið á heimavelli með nægilegum fjölda áhorfendasæta.

FH og Haukar taka þátt í 1. umferð EHF-keppninnar sem fram fer í lok ágúst og byrjun september. FH er þar í efri styrkleikaflokki en Haukar í þeim neðri. Hafnarfjarðarliðin gætu þar með mæst.

Karlalið Vals hefur keppni í 3. umferð í Áskorendakeppninni og mætir þar liði sem kemst áfram úr 2. umferðinni. Leikir Vals fara fram 16./17. nóvember og 23./24. nóvember. Ástæða þess að Valur byrjar þátttöku sína í 3. umferðinni er góður árangur liðsins í Áskorendakeppninni en Valur komst í undanúrslit keppninnar fyrir tveimur árum.

Dregið verður í Evrópumótunum þriðjudaginn 16. júlí.

Kvennalið Vals leikur í 1. umferð EHF-keppninnar og er þar í neðri styrkleikaflokki. Valur spilar sína leiki 7./8. september og 14./15. september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert