Hrafnhildur Hanna til Frakklands

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir. mbl.is/Valli

Handknattleikskonan Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir frá Selfossi hefur samið við franska A-deildarliðið Bourg-de-Péage Drôme Handball. Þetta kemur fram á sunnlenska.is í dag.

Hrafnhildur er nú þegar komin til Frakklands og hóf æfingar með liðinu í gær. Liðið hafnaði í næst neðsta sæti í deildinni en hélt sæti sínu í efstu deild eftir umspil.

Hrafnhildur Hanna, sem er 24 ára gömul, hefur leikið með uppeldisfélagi sínu Selfossi frá árinu 2011 og verið algjör lykilmaður hjá liðinu og einn allra besti leikmaður úrvalsdeildarinnar. Hún var markahæsti leikmaður Olís-deildarinnar 2015 til 2017 og skoraði 101 mark í 14 leikjum í vetur þegar Selfoss féll úr deildinni.

Hrafnhildur hefur spilað með íslenska landsliðinu frá árinu 2014 þar sem hún hefur skorað 47 mörk í 22 leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert