Krefjandi og skemmtilegt verkefni

Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals.
Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals. mbl.is//Hari

„Það er alveg ljóst að við erum að fara að mæta einu af besta liði Svíþjóðar svo þetta verður krefjandi en jafnframt skemmtilegt verkefni,“ sagði Ágúst Jóhannsson þjálfari Íslands- og bikarmeistara Vals í handbolta kvenna við mbl.is þegar leitað var eftir viðbrögðum hans um dráttinn í EHF-keppninni þar sem Valur mætir sænska liðinu Skuru. Eva Björk Davíðsdóttir landsliðskona  gekk á dögunum til liðs við Skuru.

„Mér líst ágætlega á þennan drátt en ég veit að Skuru er með gott lið. Það varð deildarmeistari og komst alla leið í úrslitin um meistaratitilinn. Ég veit að það hefur misst tvo til þrjá leikmenn en er búið að fá nýjan línumann og svo auðvitað Evu Björk á miðjuna. Þetta verður erfitt verkefni en það verður gaman að mæla sig við eitt besta lið Svíþjóðar.

Fyrirfram er Skuru sigurstranglegra liðið í þessu einvígi en ef við náðum toppleikjum og náum að gera vel í fyrri leiknum á útivelli er aldrei að vita nema við getum komið á óvart,“ sagði Ágúst.

Fyrri leikur liðanna fer fram 7. eða 8. september og síðari leikurinn verður í Origo-höllinni viku síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert