Kristján byrjar á sigri með Löwen

Kristján Andrésson.
Kristján Andrésson. Ljósmynd/EHF

Kristján Andrésson stýrði þýska handknattleiksliðinu Rhein-Neckar Löwen í fyrsta sinn í deildarleik í dag þegar liðið heimsótti Ludwigshafen í fyrstu umferð deildarinnar.

Staðan í hálfleik var jöfn, 11:11, en eftir hlé var Löwen sterkari og vann að lokum þriggja marka sigur 26:23. Uwe Gensheimer sem sneri aftur til Löwen í sumar var markahæstur með sjö mörk og Alexander Petersson skoraði fimm.

Kristján er einnig þjálfari sænska karlalandsliðsins, en hann mun sinna báðum störfum fram yfir Evrópumótið í janúar. Að því loknu mun hann hætta með Svía og einungis sinna þýska liðinu.

Það voru fleiri Íslendingar á ferðinni í fyrstu umferð deildarinnar í dag. Viggó Kristjánsson skoraði fjögur mörk í sínum fyrsta deildarleik með Leipzig sem vann nauman sigur á Füchse Berlín 24:23. Þá var Gísli Þorgeir Kristjánsson á skýrslu hjá Kiel en skoraði ekki í sigri á Göppingen 31:24.

Hannes Jón Jónsson stýrði svo Bietigheim í fyrsta deildarleik í 2. deildinni en mátti þola stórtap, 27:18, fyrir Hamm-Westfalen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert