Valskonur úr leik eftir sjö marka tap

Lovísa Thompson sækir að vörn Skuru á Hlíðarenda í kvöld.
Lovísa Thompson sækir að vörn Skuru á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Valur er úr leik í EHF-bikar kvenna í handknattleik eftir sjö marka tap gegn sænsku deildararmeisturunum í Skuru í síðari leik liðanna í 1. umferð keppninnar í Origo-höllinni á Hlíðarenda. Leiknum lauk með 31:24-sigri sænska liðsins en Valur vann fyrri leik liðanna á laugardaginn síðasta með einu marki, 23:22, og Skuru vinnur því einvígið samanlagt 53:47.

Það var mikið jafnræði með liðunum í upphafi leiks þótt Valsliðið hafi haft yfirhöndina framan af. Eftir fimm mínútna leik var staðan 2:2 og þegar tíu mínútur voru liðnar af fyrri hálfleik var staðan 4:4. Eftir fimmtán mínútna leik náðu Valskonur eins marks forskoti, 6:5, en Skuru tókst að jafna metin og sænska liðið náði yfirhöndinni þegar átta mínútur voru til loka fyrri hálfleiks. Þegar fimm mínútur voru eftir af hálfleiknum munaði tveimur mörkum á liðunum, 12:10, Skuru í vil. Valskonur gáfu mikið eftir á lokamínútum fyrri hálfleiks á meðan sænska liðið spýtti í lófana og nýtti sér klaufaleg mistök Valsliðsins og var munurinn á liðunum fimm mörk í hálfleik, 16:11.

Valskonur byrjuðu seinni hálfleikinn afar illa og Skuru átti þrjú fyrstu mörk síðari hálfleiks. Díana Dögg Magnúsdóttir minnkaði muninn fyrir Valsliðið í 19:12 á 35. mínútu en þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka var munurinn á liðunum tíu mörk, 26:16, Skuru í vil. Elín Rósa Magnúsdóttir minnkaði muninn fyrir Valskonur í níu mörk með sínu fyrsta marki í leiknum þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Valskonur fundu loksins taktinn á nýjan leik í sóknarleiknum þegar fimm mínútur voru til leiksloka. Þeim tókst að minnka forskot Skuru niður í sex mörk en lengra komuust Valskonur ekki og sænsku deildarmeistararnir fögnuðu sigri.

Díana Dögg Magnúsdóttir var atkvæðamest í Valsliðinu með átta mörk og þá skoraði Ásdís Þóra Ágústsdóttir sex mörk fyrir Valsliðið. Þá átti Íris Björk Símonardóttir mjög góðan leik í marki Valskvenna og varði hún 16 skot, þar af eitt vítakast. Eva Björk Davíðsdóttir, leikmaður Skuru, komst ekki á blað hjá sænska liðinu í kvöld.

Valur 24:31 Skuru opna loka
60. mín. Mathilda Lundström (Skuru) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert