Sterkur sigur FH í Krikanum

Bjarni Ófeigur Valdimarsson sækir að Völsurum sem taka vel á …
Bjarni Ófeigur Valdimarsson sækir að Völsurum sem taka vel á honum í Kaplakrika í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

FH innbyrti sín fyrstu stig í Olís-deild karla í handknattleik í kvöld þegar þeir lögðu Valsmenn 26:23 í sveiflukenndum leik í Kaplakrika.

FH-ingar spiluðu frábærlega fyrstu 20 mínútur leiksins. Þjóðverjinn Phil Döhler lokaði mark FH á löngum köflum í fyrri hálfleik og varði alls 14 skot í hálfleiknum fyrir aftan geysilega góða vörn heimamanna. Valsmenn mættu einfaldlega ekki til leiks og framan af hálfleiknum var leikur þeirra í molum alls staðar á vellinum. Þeir lentu mest níu mörkum undir 12:3 en þeir bitu aðeins frá sér á síðustu tíu mínútunum og náðu að laga stöðuna áður en fyrri hálfleikur var allur.

Það var vitað að það kæmi áhlaup frá Valsmönnum og þeir hófu það í byrjun seinni hálfleiks því eftir átta mínútna leik var Valur búinn að minnka muninn niður í eitt mark 18:17. FH-ingar náðu vopnum sínum á ný með Ásbjörn Friðriksson í broddi fylkingar. Þeir náðu fjögurra marka marka forskoti 22:18 þegar stundarfjórðungur var eftir og Valsmenn náðu ekki að brúa þetta bil. FH-ingar fögnuðu sætum sigri og eru komnir á blað í deildinni.

Lykilinn að sigri FH-inga var sterk vörn og frábær markvarsla Þjóðverjans.  Vörn FH-inga var slök í ósigrinum gegn Selfyssingum í fyrstu umferðinni en allt annað var uppi á teningnum í dag. Ásbjörn Friðriksson var öflugur þegar mest á reyndi í seinni hálfleik og Arnar Freyr Ársælsson átti flottan leik í vörn og sókn.

Valsmenn áttu afleitan fyrri hálfleik en þeir komu öflugir inn í seinni hálfleikinn og það stefndi í að þeir gerðu þetta að spennuleik en það fór mikil orka hjá þeim í að vinna upp níu marka forskot FH-inga í fyrri hálfleik og þeir höfðu ekki kraftinn á lokakafla leiksins. Sóknarleikur Valsmanna var slakur en vörnin lagaðist til mikilla muna í seinni hálfleik sem og markvarslan. Anton Rúnarsson lék best af leikmönnum Vals en sóknarleikurinn í byrjun tímabilsins er ekki til útflutnings hjá Hlíðarendaliðinu.

FH 27:23 Valur opna loka
60. mín. FH tapar boltanum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert