Þór vann fyrsta leikinn síðan 2006

Brynjar Hólm Grétarsson skoraði níu mörk fyrir Þór.
Brynjar Hólm Grétarsson skoraði níu mörk fyrir Þór. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Þór fer vel af stað í 1. deild karla í handbolta, Grill 66 deildinni, og vann 29:27-sigur á FH U á útivelli í 1. umferðinni í dag. Leikurinn var sá fyrsti sem Þór leikur undir nafninu síðan 22. apríl 2006. Síðustu ár hefur félagið verið undir nafni Akureyrar. 

Brynjar Hólm Grétarsson skoraði níu mörk fyrir Þór og Jóhann Geir Sævarsson skoraði sex. Hlynur Jóhannsson var markahæstur hjá FH U með níu mörk. 

Víkingur, sem var hársbreidd frá því að tryggja sér sæti í efstu deild á síðustu leiktíð tapaði á útivelli gegn KA U, 24:26. Jóhann Einarsson skoraði átta mörk fyrir KA og Bjartur Már Guðmundsson gerði slíkt hið sama fyrir Víking. 

Þróttur hafði betur gegn Fjölni U, 36:29. Viktor Jóhannsson skoraði níu mörk fyrir Þrótt og Styrmir Sigurðsson gerði átta. Viktor Berg Grétarsson og Gísli Steinar Valmundsson gerðu fimm mörk hvor fyrir Fjölni U. 

Þá tapaði Grótta, sem féll úr efstu deild á síðustu leiktíð, á útivelli gegn Haukum U. Hjörtur Ingi Halldórsson skoraði níu mörk fyrir Hauka og Jóhann Karl Reynisson skoraði sex mörk fyrir Gróttu. 

Loks vann Valur U 31:21-útisigur á Stjörnunni U. Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði sex mörk fyrir Val, eins og Pétur Blöndal fyrir Stjörnuna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert