Klaufalegt hjá okkur og lélegt

Snorri Steinn Guðjónsson
Snorri Steinn Guðjónsson mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„Mér fannst þetta vera fótur á Hauk, en það er ekkert meira í því,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, um lokasókn Selfyssinga í 27:27-jafntefli liðanna í 3. umferð Olísdeildar karla í handbolta. Snorri vildi að Valsmenn fengju boltann rétt fyrir leikslok og í leiðinni möguleika á að vinna leikinn. 

Valsmenn komust mest sex mörkum yfir í seinni hálfleik, en þurftu svo mark í lokasókn sinni til að jafna í 27:27 og hefðu því getað tapað leiknum. 

„Ég er mjög svekktur með það. Það er klaufalegt hjá okkur og lélegt. Við spiluðum samt vel á löngum köflum og mikil batamerki frá síðasta leik. Við komum með ákveðin svör eftir þá frammistöðu. Við klikkuðum samt á mörgum færum og skotum. Það var í fyrstu tveimur leikjunum líka og það er nokkuð sem við verðum að laga.“

Hreiðar Levý Guðmundsson kom vel inn í markið hjá Val í fyrri hálfleik en svo dró af honum í þeim seinni, þegar Selfyssingar komu með áhlaup. 

„Hreiðar er bara búinn að æfa í viku, svo það er eðlilegt að hann haldi það ekki alveg út. Ég er mjög ánægður með að fá hann inn í þetta og ánægður með Danna líka. Við erum í góðum málum þar,“ sagði Snorri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert