Afturelding sterkari á lokasprettinum

Þorsteinn Gauti Hjálmarsson skýtur að marki Fram í kvöld.
Þorsteinn Gauti Hjálmarsson skýtur að marki Fram í kvöld. mbl.is/Hari

Afturelding er enn ósigruð í Olís-deild karla í handknattleik eftir þrjár umferðir. Afturelding fagnaði í kvöld baráttusigri á Fram á Varmá, 25:23, eftir að hafa átt undir högg að sækja lengi vel. Fram, sem er án sigurs í deildinni, var marki yfir í hálfleik, 11:10, og náði mest fjögurra marka forskoti í síðari hálfleik.

Aftureldingarmenn voru lengi að ná vopnum sínum í viðureign sinni við Fram. Þeir áttu undir högg að sækja lengst af og skoruðu til að mynda aðeins þrjú mörk á fyrsta stundarfjórðungi leiksins. Fram-liðið mætti öflugra til leiks en í fyrstu tveimur viðureignum sínum á leiktíðinni þótt enn væru nokkrir hnökrar á sóknarleiknum. Fimm-einn-vörn Fram var hins vegar sterk og sló leikmenn Aftureldingar út af laginu lengi vel auk þess sem Lárus Helgi Ólafsson var með á nótunum í marki Fram, reyndar eins og starfsbróðir hans, Arnór Freyr Stefánsson, hinum megin vallarins. Aftureldingarmenn voru lengi í gang en hresstust nokkuð á síðari helmingi fyrri hálfleiks og komust í fyrsta sinn yfir, 10:9, þegar um tvær mínútur voru til loka hálfleiksins.

Líkt og í fyrri hálfleik hófu Framarar síðari hálfleikinn mun betur en heimamenn. Áður en varði var forskot Fram-liðsins orðið fjögur mörk, 15:11, og skömmu síðar 17:13 þegar tíu mínútur voru liðnar af hálfleiknum. Svo virtist sem Fram-liðið ætlaði að halda frumkvæðinu en agalítill sóknarleikur á kafla kom leikmönnum liðsins í koll. Aftureldingarmenn gengu á lagið án þess að eiga glansleik en vopn þeirra að leika með sjö menn í sókn reyndist Fram-liðinu erfitt þegar á leið. Guðmundur Árni Ólafsson jafnaði metin fyrir Aftureldingu, 20:20, þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Bikir Benediktsson kom Aftureldingu í fyrsta sinn yfir í síðari hálfleik, 21:20, með sjötta marki sínu í síðari hálfleik skömmu síðar.

Eftir að Afturelding komst yfir náði liðið að hanga á forskotinu eins og hundur á roði allt til leiksloka og vinna með tveggja marka mun, 25:23.

Framarar geta fáum öðrum en sjálfum sér kennt um að hafa ekki fengið stig úr leiknum. Liðið er áfram án stiga meðal botnliðanna. Aftureldingarmenn geta þakkað fyrir stigin tvö. Þau voru torsótt og leikur liðsins í 45 mínútur langt frá því að vera eins góður og staða liðsins segir á meðal þeirra efstu eftir þrjár umferðir.

Birkir Benediktsson var markahæstur hjá Aftureldingu með sjö mörk, öll í síðari hálfleik. Tumi Steinn Rúnarsson og Guðmundur Árni Ólafsson voru næstir með fjögur mörk hvor. Arnór Freyr Stefánsson átti afar góðan leik í markinu og varði 19 skot.

Andri Heimir Friðriksson var markahæstur hjá Fram með sex mörk. Matthías Daðason skoraði næstflest mörk, fimm. Lárus Helgi Ólafsson varði 13 skot í marki Fram.

Afturelding 25:23 Fram opna loka
60. mín. Fram tapar boltanum - klaufalegt verandi manni fleiri.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert