Bjarki Már skoraði sjö gegn gömlu félögunum

Bjarki Már Elísson í leik með Lemgo
Bjarki Már Elísson í leik með Lemgo

Íslendingarnir í þýska handboltanum áttu erfiðan dag en allir voru þeir í tapliðum í efstu deildum karla og kvenna. Bjarki Már Elísson var sprækastur af okkar fólki en hann skoraði sjö mörk fyrir Lemgo gegn sínu gamla félagi.

Þau sjö mörk dugðu þó ekki til en Lemgo tapaði 31:26 á heimavelli gegn gamla félagi Bjarka, Füchse Berlín, en hann færði sig yfir til Lemgo í sumar. Bjarki og félagar hafa farið illa af stað en þeir hafa aðeins unnið einn af fyrstu sex leikjum sínum og sitja í 14. sæti.

Viggó Kristjánsson skoraði þrjú mörk fyrir Leipzig sem tapaði 30:22 á útivelli gegn Flensburg og Nordhorn, lið Geirs Sveinssonar, tapaði 31:24 heima gegn Melsungen. Nordhorn er því áfram stigalaust á botni deildarinnar en Leipzig er í 7. sæti með fjóra sigra og tvö töp.

Hildigunnur Einarsdóttir lék svo með Leverkusen og skoraði þrjú mörk í 29:21-tapi á heimavelli gegn Bietigheim í efstu deild kvenna en þetta var fyrsta tap Leverkusen sem er nú í 7. sætinu eftir þrjár umferðir. Biegtigheim er eitt þriggja liða sem enn eru með fullt hús stiga eftir umferðirnar þrjár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert