Haukar sluppu með skrekkinn gegn Stjörnunni

Haukar hafa farið vel af stað og unnið fyrstu tvo …
Haukar hafa farið vel af stað og unnið fyrstu tvo leiki sína.

Haukar eru með fullt hús stiga í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, eftir torsóttan 23:20-sigur gegn Stjörnunni í 3. umferð deildarinnar á Ásvöllum í Hafnarfirði í dag. Stjarnan leiddi með fjórum mörkum í hálfleik, 12:8, en Haukar voru sterkari aðilinn í síðari hálfleik og unnu þriggja marka sigur.

Mikið jafnræði var með liðunum til að byrja með. Grétar Ari Guðjónsson, markmaður Hauka, og Stephen Nielsen, markmaður Stjörnunnar, voru báðir í aðalhlutverkum fyrstu tíu mínútur leiksins þar sem aðeins voru skoruð sex mörk. Haukar voru þó með frumkvæðið framan af en Garðbæingar voru aldrei langt á eftir. Stjarnan fékk nokkrum sinnum tækifæri til þess að koma sér yfir í leiknum en allt kom fyrir ekki. Haukar náðu tveggja marka forskoti, 6:4, þegar sautján mínútur voru liðnar af fyrri hálfleik en þá hrukku Garðbæingar í gang. Stjarnan jafnaði metin í 6:6 þegar tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik og eftir 25. mínútna leik kom Andri Þór Helgason Stjörnunni þremur mörkum yfir með marki úr vítaspyrnu. Ólafur Ægir Ólafsson minnkaði muninn í 10:8 með marki úr víti og Haukar fengu tvö tækifæri til þess að minnka muninn enn frekar undir lok síðari hálfleiks.

Þeir töpuðu hins vegar boltanum klaufalega í bæði skiptin. Andri Þór Helgason kom Stjörnunni fjórum mörkum yfir, 12:8, úr hraðaupphlaupi undir lok fyrri hálfleiks. Haukar fengu tækifæri til þess að laga stöðuna með síðasta skoti fyrri hálfleiks en Stephen varði mjög vel frá Ólafi Ægi Ólafssyni og Stjarnan leiddi því með fjórum mörkum í hálfleik, 12:8. Jafnræði var með liðunum í upphafi síðari hálfleiks, líkt og í fyrri hálfleik. Liðin skiptust á að skora og markmenn beggja liða vörðu vel hvor á sínum enda vallarsins. Á 40. mínútu fór Byrnjólfur Darri Brynjóflsson inn úr hægra horninu og minnkaði muninn í þrjú mörk fyrir Hauka, 15:12. Brynjólfur kom Haukum svo inn í leikinn einn síns liðs þegar hann minnkaði muninn í 15:14.

Andri Már Rúnarsson kom Stjörnunni aftur tveimur mörkum yfir, 16:14, en Ásgeir Örn Hallgrímsson minnkaði muninn strax aftur fyrir Hauka. Vignir Svavarsson fékk dauðafæri til þess að jafna metin fyrir Hauka þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka en Stephen í marki Stjörnunnar varði meistaralega frá honum á línunni. Liðin skiptust á að skora en þegar tíu mínútur voru til leiksloka jafnaði Einar Pétur Pétursson metin fyrir Hauka í 18:18. Brynjólfur Snær kom Haukum svo yfir, 19:18, í fyrsta sinn síðan í fyrri hálfleik þegar átta mínútur voru til leiksloka. Gunnar Johnsen jafnaði metin fyrir Stjörnuna þegar sjö mínútur voru til leiksloka og allt í járnum.

Atli Már Báruson kom Haukum yfir með frábæru gegnumbroti á 55. mínútu, 20:19, og eftir það fjaraði leikurinn út. Sóknarmenn Stjörnunnar fóru illa að ráði sínu og Haukar nýttu sín færi vel. Brynjólfur Snær kom Haukum þremur mörkum yfir þegar þrjár mínútur voru til leiksloka og þann mun tókst Garðbæingum ekki að brúa. Haukar eru með sex stig í efsta sæti deildarinnar eftir fyrstu þrjá leiki sína en Stjarnan er sem fyrr á botni deildarinnar án stiga.

Haukar 23:20 Stjarnan opna loka
60. mín. Leik lokið Leik lokið í Hafnarfirði og það eru HAukar sem fara með sigur af hólmi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert