Ömurlegt að fá ekkert

Framarinn Þorgrímur Smári Ólafsson sækir að Karolis Stropus og Birki …
Framarinn Þorgrímur Smári Ólafsson sækir að Karolis Stropus og Birki Benediktssyni, liðsmönnum Aftureldingar, í leik liðanna að Varmá í kvöld. mbl.is/Hari

Guðmundur Helgi Pálsson þjálfari Fram var vonsvikinn eftir tveggja marka tap liðs síns fyrir Aftureldingu, 25:23, á Varmá í kvöld í þriðju umferð Olísdeildar karla í handknattleik. Framliðið var með yfirhöndina í leiknum í ríflega 45 mínútur en það dugði ekki því heimamenn í Aftureldingu voru klókari á lokasprettinum. Fram er enn án stiga í deildinni en Afturelding er hinsvegar í hópi þeirra liða deildarinnar sem hafa unnið allar viðureignir sínar til þessa.

„Það er ömurlegt að fá ekkert út úr þessum leik eftir að hafa verið sterkari í 45 til 48 mínútur. Þá fórum við út úr okkar ramma og upp kom agaleysi um tíma. Við féllum á atriðum sem búið var að fara vel yfir fyrir leikinn. Af þeim sökum eigum við nokkur skot og ákvarðanir sem urðu okkur dýr og menn verða að læra af,“ sagði Guðmundur Helgi sem þrátt fyrir allt sér þó framfaraskref hjá sínum mönnum þótt þau hafi ekki skilað sér fullkomlega að þessu sinni. „Við töpuðum leiknum frekar en að Afturelding sigraði. Þess vegna eru menn vonsviknir í klefanum núna,“ sagði Guðmundur Helgi sem hefur á síðustu árum sýnt mikla þrautseigju við þjálfun Framliðsins þótt á stundum hafi útlitið ekki verið bjart.

„Við erum á réttri leið og verðum bara að halda áfram að vinna í okkar málum,“ sagði Guðmundur Helgi ennfremur en hann saknar enn beggja örvhentu skyttanna frá síðustu leiktíð, Arons Gauta Óskarssonar og Svavars Kára Grétarssonar. Skarð er fyrir skildi.

„Okkar verkefni er að halda áfram að byggja ofan á það sem við höfum verið að gera vel. Um leið og það tekst betur og leikur okkar verður heilsteyptari í 60 mínútur þá förum við að tína inn stig,“ sagði Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari karlaliðs Fram í handknattleik, í samtali við mbl.is í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert