„Hann getur þetta“

Tjörvi Þorgeirsson skorar með undirhandarskoti í kvöld.
Tjörvi Þorgeirsson skorar með undirhandarskoti í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gunnar Magnússon, þjálfari toppliðs Hauka í Olís-deild karla, var afskaplega ánægður með sína menn í kvöld þegar þeir skelltu Íslandsmeisturunum frá Selfossi 36:29 á Ásvöllum. 

„Ég er mjög ánægður með frammistöðuna í kvöld. Sérstaklega í sókninni því við skoruðum mikið. Sóknin var frábær í allt kvöld og Tjörvi var stórkostlegur en margir lögðu í púkkið. Á heildina litið var frammistaðan góð og auðvitað munar um það að Andri varði frábærlega í markinu í síðari hálfleik,“ sagði Gunnar og spurður nánar út í Tjörva Þorgeirsson sem skoraði 11 mörk sagði Gunnar að hann þyrfti sem þjálfari að reyna að kalla fram slíka frammistöðu oftar hjá Tjörva. 

„Hann getur þetta og hefur átt tvo frábæra leiki í vetur en mitt verkefni er að fjölga þeim. Við vitum allir hvað hann getur og þurfum að ná því oftar fram,“ sagði Gunnar en hjá Selfyssingum skoraði Haukur Þrastarson 10 mörk. Hann hafði hins vegar skorað 5 á fyrsta korterinu og eftir það tókst Hafnfirðingum að halda betur aftur af honum. 

„Við náðum að halda Hauki niðri á köflum. Okkur tókst það á smá kafla í fyrri hálfleik og náðum þá forystu. Í síðari hálfleik tókst okkur að halda honum betur niðri en oft áður.“

Gunnar Magnússon.
Gunnar Magnússon. mbl.is/Þórir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert