Haukar taplausir á toppnum

Haukar unnu Selfoss 36:29 í 9. umferð úrvalsdeildar karla í handknattleik, Olísdeildarinnar, á Ásvöllum í kvöld og eru enn án taps eftir níu leiki í deildinni.  

Um var að ræða síðasta leik umferðarinnar en Haukar eru með 16stig í efsta sæti. Afturelding er með 14 stig, ÍR 12, Selfoss 11 og FH 11 í næstu sætum þar á eftir.

Sigur Hauka var sannfærandi en liðið hafði frumkvæðið lengst af. Eina skiptið sem Selfoss var yfir í leiknum var í stöðunni 0:1. Sóknarleikur var í fyrirrúmi hjá liðunum í fyrri hálfleik og að honum loknum var staðan 19:16 fyrir Hauka. 

Eftir nokkrar mínútur í síðari hálfleik munaði einu marki á liðunum í stöðunni 21:20. Eftir að Haukar náðu fimm marka forskoti á 48. mínútu var engin spurning um hvort liðið næði í stigin tvö. 

Andri Sigmarsson Scheving varði 14 skot í marki Hauka þótt hann hafi ekki byrjað inn á. Tjörvi Þorgeirsson átti frábæran leik í sókninni og skoraði 11 mörk. 

Haukur Þrastarson skoraði fimm mörk á fyrsta korteri leiksins en eftir það náðu Haukar betri tökum á honum. Hann skoraði þó 10 mörk þegar uppi var staðið en samherjum hans gekk ekki jafnvel að finna leiðina í markið. Markverðir Selfoss vörðu samtals tíu skot og ólíklegt að það dugi til að vinna á Ásvöllum. Vörnin fyrir framan þá var ekki alltaf traust. 

Haukar 36:29 Selfoss opna loka
60. mín. Haukur Þrastarson (Selfoss) skoraði mark Hans tíunda mark.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert