„Höfum ekki farið svona langt niður“

Selfyssingar áttu erfitt uppdráttar á köflum á Ásvöllum í kvöld. …
Selfyssingar áttu erfitt uppdráttar á köflum á Ásvöllum í kvöld. Hér reynir Nökkvi Dan Elliðason að brjótast í gegn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Grímur Hergeirsson, þjálfari Selfyssinga í Olís-deild karla í handknattleik, sagði sitt lið hafa átt verstu spretti sína hingað til í deildakeppninni í haust þegar Selfoss tapaði fyrir Haukum 36:29 á Ásvöllum. 

„Þetta var engan veginn nógu gott. Við höfum ekki farið svona langt niður í vetur,“ sagði Grímur þegar mbl.is spjallaði við hann á Ásvöllum. Að loknum fyrri hálfleik munaði þremur mörkum á liðunum en Haukar slitu sig endanlega frá Selfyssingum á síðustu tólf mínútunum. 

„Við gáfum bara eftir og vorum bara á hælunum í rauninni í vörninni. Við vorum auk þess óskynsamir í sókninni og það kostar á móti svona liði. Síðasta korterið vorum við gersamlega á hælunum. Við þurfum að fara aðeins í naflaskoðun. En við eigum leik á sunnudag og þá er kjörið tækifæri fyrir menn að svara þessu.“

Selfoss er með 11 stig eftir níu leiki eins og FH og eru þau í 4. og 5. sæti. „Ég er sáttur við margt sem af er í upphafi móts. Haukar eru með topplið og það er ekki auðvelt að koma hingað á þeirra heimavöll. Maður reiknar svo sem ekki með því að taka með sér tvö stig héðan. En á meðan við vinnum þá leiki sem við eigum að vinna þannig séð, á móti liðum sem eru fyrir neðan okkur, þá erum við á þokkalegu róli. Mikið er eftir af mótinu og við ætlum að telja upp úr pokanum þegar vorar og sjá hvað það færir okkur,“ sagði Grímur Hergeirsson ennfremur. 

Grímur Hergeirsson
Grímur Hergeirsson Ljósmynd/Guðmundur Karl
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert