Svekktur yfir varnarleiknum

Birkir Benediktsson átti enn einn stórleikinn fyrir Aftureldingu í kvöld …
Birkir Benediktsson átti enn einn stórleikinn fyrir Aftureldingu í kvöld gegn ÍR. Hann skoraði 11 mörk. mbl.is/Hari

„Ég er svekktur, ekki síst með varnarleikinn sem var engan vegin nógu góður allan leikinn,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari karlaliðs Aftureldingar í handknattleik, eftir 31:31 jafntefli, við ÍR í 10.umferð Olís-deildar karla að Varmá í kvöld í uppgjöri liðanna í öðru og þriðja sæti deildarinnar.

„Mér fannst við aldrei ná takti í varnarleikinn. Fram til þessa höfum við fengið um 24 mörk að meðaltali á okkur í leik í vetur en að þessu sinni voru þau nokkru fleiri. Vissulega eru ÍR-ingar með frábært sóknarlið, leikmenn sem eru sterkir maður á mann. Þeir hafa alltaf verið okkur erfiðir. En því miður þá náðum við aldrei tökum á þeim,“ sagði Einar Andri.

Afturelding komst oftar en einu sinni fjórum mörkum yfir í leiknum, m.a. í fyrri hluta síðari hálfsleik. „Forskotinu náðum við ekki endilega vegna þess að vörnin var svo góð, fremur vegna þess að Arnór Freyr markvörður varði vel og eins gekk sóknarleikur okkur vel lengst af.  Við verðum að fara vel yfir varnarleikinn.

Hinsvegar er ástæðulaust að vera fúll yfir að fá eitt stig á móti ÍR. Þeir voru komnir yfir undir lokin og hefðu getað hirt bæði stigin,“ sagði Einar Andri sem tók leikhlé þegar 22 sekúndur voru til leikloka í jafnri stöðu. Leikhléi nægði ekki til að Afturelding næði góðu marktækifæri.  „Við áttum fimm sekúndur eftir áður en dæmd var á okkur töf. Þess vegna lagði ég áherslu á að við teygðum á tímanum með því að sækja eitt aukakast til að sem minnstur tími yrði eftir fyrir ÍR-inga. Mér fannst þetta ganga vel upp. Tumi fékk síðan fínt skotfæri sem hann skorar yfirleitt úr en því miður ekki að þessu sinni. Við erum þar af leiðandi sáttir við lokasekúndurnar,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar sem situr áfram í öðru sæti deildarinnar með 15 stig eftir leikinn, tveimur stigum á undan ÍR sem er í þriðja sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert