Enn vinna Noregur og Þórir

Norska liðið fagnar sigri.
Norska liðið fagnar sigri. Ljósmynd/IHF

Noregur, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, vann sinn fjórða sigur í jafnmörgum leikjum er liðið lagði Angóla, 30:24, á EM kvenna í handbolta í Japan í dag. Angóla stóð lengi í þeim norsku og munaði aðeins einu marki í hálfleik, 13:12.

Norska liðið komst í 21:16 snemma í seinni hálfleik, en Angóla neitaði að gefast upp og minnkaði muninn í 21:20 um miðbik hálfleiksins. Noregur var hins vegar mikið sterkari á lokakaflanum og sigldi sigri í höfn. 

Emile Arntzen skoraði sex mörk fyrir Noreg og þær Heidi Loke, Stine Oftedal, Kari Brattset, Marit Jacobsen, Sanna Solberg og Marta Tomac skoruðu allar þrjú mörk. 

Noregur er með 56 mörk í plús eftir fyrstu fjóra leikina og er sæti í milliriðlum tryggt. Liðinu nægir jafntefli við Holland í lokaumferð riðlakeppninnar til að tryggja sér toppsæti A-riðils. 

Svíþjóð er einnig með fullt hús stiga eftir 30:23-sigur á Argentínu. Staðan í hálfleik var 14:11 og var sænska liðið með undirtökin allan leikinn. Mikaela Massing skoraði fimm mörk fyrir Svíþjóð.

Svíþjóð er með átta stig í D-riðli, eins og Rússland, og mætast þau í hreinum úrslitaleik um toppsætið á morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert