Afturelding skiptir um þjálfara

Haraldur Þorvarðarson þjálfari Aftureldingar
Haraldur Þorvarðarson þjálfari Aftureldingar Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Stjórn handknattleiksdeildar Aftureldingar og Haraldur Þorvarðarson hafa komist að samkomulagi um að hann láti af störfum sem þjálfari meistaraflokks kvenna hjá félaginu. 

Haraldur kom Aftureldingu upp í efstu deild á sinni annarri leiktíð með liðið, en lítið hefur gengið í Olísdeildinni á tímabilinu og er liðið stigalaust á botni deildarinnar eftir tíu leiki. 

Afturelding greinir frá tíðindunum á heimasíðu sinni og er þar tekið fram að ákvörðunin sé niðurstaða hlutaðeigandi aðila eftir skoðun og viðræðum um stöðu flokksins og heildrænt mat. 

Stjórnin vill þakka Haraldi fyrir aðkomu hans að uppbyggingu kvennahandboltans hjá félaginu, en hann hefur sýnt mikinn áhuga og metnað í þeim efnum, sem hefur skilað liðinu í efstu deild. Þá óskar Afturelding Haraldi farsældar í framtíðinni í þeim verkefnum sem hann tekur að sér og þakkar gott samstarf,“ segir sömuleiðis í tilkynningunni. 

Einar Bragason og Hjörtur Örn Arnarson stýra liðinu gegn Stjörnunni á morgun, áður en hafist verður handa við að finna nýjan þjálfara. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert