Ólympíudraumur Dana úr sögunni

Serbinn Jovana Jovovic og Daninn Anne Mette Hansen í leiknum …
Serbinn Jovana Jovovic og Daninn Anne Mette Hansen í leiknum í dag. AFP

Danir eru úr leik í baráttunni um sæti í handknattleikskeppni kvenna á Ólympíuleikunum í Tókýó næsta sumar eftir jafntefli gegn Serbum, 26:26, í lokaumferð milliriðlakeppninnar í Japan en viðureign liðanna  var að ljúka.

Danir áttu sláarskot í síðustu sókninni og náðu þar með ekki að knýja fram sigurinn sem liðið þurfti á að halda. Stine Jørgensen skoraði 6 mörk fyrir Dani og Trine Jensen 5 en Sladana Pop-Lazic skoraði 6 mörk fyrir Serba.

Serbar tryggðu sér þar með fjórða sæti riðilsins með 5 stig en danska liðið situr eftir í fimmta sætinu með 4 stig, fyrir ofan Suður-Kóreu sem fékk 2 stig.

Með þessum úrslitum er jafnframt endanlega ljóst að  viðureign Noregs og Þýskalands sem hefst klukkan 11.30 er hreinn úrslitaleikur um sæti í undanúrslitum keppninnar. Bæði lið komast áfram með jafntefli, en að öðrum kosti fer sigurliðið áfram ásamt Hollendingum.

Japanar fengu sín fyrstu og einu stig í milliriðli tvö með því að rótbursta Rúmena, 37:20, í lokaumferðinni. Japanska liðið fékk því tvö stig í fimmta sæti  en Rúmenar luku keppni án stiga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert