Valsmenn spila ekki á Hlíðarenda

Ýmir Örn Gíslason og félagar í Val freista þess að …
Ýmir Örn Gíslason og félagar í Val freista þess að komast í átta liða úrslit Áskorendabikarsins án þess að spila heimaleik. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valsmenn munu ekki spila á heimavelli sínum að Hlíðarenda í sextán liða úrslitum Áskorendabikars Evrópu í handknattleik í næsta mánuði.

Þeir hafa samið við tyrkneska félagið Beykoz frá Istanbúl um að báðir leikir liðanna fari fram í tyrknesku borginni helgina 15. til 16. febrúar. 

Fyrri leikurinn, sem er heimaleikur Beykoz, fer fram laugardaginn 15. febrúar klukkan 13 að íslenskum tíma og sá seinni, heimaleikur Vals, nákvæmlega sólarhring síðar.

Valsmenn léku heldur ekki á heimavelli í 32ja liða úrslitunum þegar þeir mættu Bregenz í Austurríki. Fyrri leikurinn þar endaði 31:31 en Valsmenn unnu seinni leikinn með yfirburðum, 31:21.

Beykoz lék hins vegar báða leiki sína gegn Granitas-Karys í 32ja liða úrslitum á sínum heimavelli í Istanbúl. Tyrkirnir burstuðu Litháana 37:22 í fyrri leiknum en Granitas vann seinni leikinn 34:29.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert