Holstebro búið að semja við Óðin

Óðinn Þór Ríkharðsson í landsleik.
Óðinn Þór Ríkharðsson í landsleik. mbl.is/Hari

Danska handknattleiksfélagið Tvis Holstebro tilkynnti rétt í þessu að félagið hefði gert eins árs samning við íslenska landsliðsmanninn Óðin Þór Ríkharðsson, sem nú leikur með GOG í dönsku úrvalsdeildinni.

Hann kemur til liðs við Holstebro 1. júlí í sumar og á að leysa af hólmi örvhenta hornamanninn Christian Jensen á næsta tímabili. Jensen sleit krossband í hné og missir af mestöllu næsta tímabili.

Óðinn leikur sitt annað tímabil með GOG. Hann er hluti af íslenska landsliðshópnum sem var valinn fyrir EM en var ekki valinn í endanlega hópinn sem fór til Malmö. Arnór Þór Gunnarsson og Sigvaldi Björn Guðjónsson voru á undan honum í stöðu örvhents hornamanns í landsliðinu.

Tvis Holstebro er í öðru sæti dönsku úrvalsdeildarinnar, sjö stigum á eftir toppliði Aalborg. GOG er í sjötta sæti, þremur stigum á eftir Holstebro. Óðinn hefur skorað 26 mörk í 16 leikjum fyrir GOG í deildinni í vetur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert