Þriggja marka tap gegn Noregi

Noregur vann Ísland 31:28 í næstsíðustu umferð milliriðlakeppni Evrópumóts karla í handknattleik í Malmö Arena í sænsku borginni Malmö í dag. Noregur hefur unnið alla sex leiki sína og er á leið í undanúrslit nema þeir tapi fyrir Slóvenum með átta marka mun eða verr. Ísland á ekki lengur möguleika á að komast í undankeppni Ólympíuleikanna. 

Norðmenn eru með 8 stig, Slóvenar 6 stig, Ungverjar 4 stig, Íslendingar og Portúgalar 2 stig en Svíar reka lestina án stiga. Ungverjar og Svíar mætast klukkan 19.30 í kvöld.

Nokkuð ljóst er að Ísland mun ekki ná öðru af þeim tveimur sætum sem eftir eru fyrir Evrópuþjóðir í undankeppni Ólympíuleikanna. Hún fer fram í apríl og leikarnir hefjast 24. júlí. Eini möguleikinn úr því sem komið er væri ef Slóvenar eða Ungverjar færu alla leið og yrðu Evrópumeistarar. Þá myndi þeir tryggja sig með þeim hætti. Ísland þarf þá að vera fyrir ofan Portúgal og liðin úr hinum milliriðlinum Austurríki og Hvíta-Rússland. 

Skelfileg byrjun minnkaði mjög möguleika Íslendinga á að vinna leikinn. Norðmenn skoruðu fyrstu sjö mörkin og fyrsta íslenska markið kom eftir liðlega níu mínútna leik. Norðmenn voru miklu sterkari bæði í vörn og sókn á upphafsmínútunum. Það sem eftir lifði fyrri hálfleiks skoruðu liðin sitt hvor 12 mörkin og var staðan að honum loknum því 19:12 fyrir Noreg. 

Þjálfarinn Guðmundur Guðmundsson tók leikmennina þrjá, sem byrjuðu fyrir utan í sókninni, út af eftir um það bil korter. Ólafur Guðmundsson, Haukur Þrastarson og Viggó Kristjánsson komu inn á fyrir Aron Pálmarsson, Janus Daða Smárason og Alexander Petersson. Ólafur, Haukur og Viggó léku að mestu leyti í sókninni það sem eftir lifði leiks. Þeir hleyptu lífi í sóknina sem hafði verið slök og Ólafur Guðmundsson fann leiðina í mark Noregs með firnaföstum skotum utan af velli. 

Viktor Gísli Hallgrímsson kom inn á í markið þegar leið á fyrri hálfleik. Hann byrjaði mjög vel í síðari hálfleik og þá kviknaði von um að íslenska liðið gæti unnið muninn upp. Vonin var í það minnsta til staðar þegar Ísland saxaði á muninn í síðari hálfleik. En því miður varð munurinn aldrei minni en þrjú mörk og Norðmenn urðu því aldrei verulega stressaðir. Ísland fékk tækifæri til að minnka muninn niður í tvö mörk en það tókst ekki.

En Norðmennirnir þurftu alla vega að hafa fyrir sigrinum sem var jákvætt frá okkar sjónarhóli séð ef mið er tekið af því að lenda sjö mörkum undir gegn liði sem gengið hefur flest í haginn á mótinu. 

Til lengri tíma litið felast verðmæti í því að Haukur Þrastarson og Viktor Gísli hafi fengið stór hlutverk gegn toppliði á stórmóti eins og niðurstaðan varð í dag. Þeir eru enn innan við tvítugt og leikur sem þessi gefur þeim aukna innsýn í hvar þeir standa gegn heimsklassa mönnum. Haukur skoraði þrjú mörk og gaf auk þess þrjár stoðsendingar. Viktor varði 13 skot, þar af 2 vítaköst, og var valinn maður leiksins af mótshöldurum í leikslok. 

Elvar Örn Jónsson og Ýmir Örn Gíslason léku í miðri vörninni eins og áður. Þeir áttu erfitt með að hemja Sander Sagosen eins og öðrum liðum í mótinu. Sagosen skoraði sjö mörk í opnum leik og alls 9 mörk með vítaköstunum. Elvar og Ýmir léku þó vel í síðari hálfleik en þá var vörnin mun betri en í fyrri hálfleik. 

Noregur 31:28 Ísland opna loka
60. mín. Noregur tapar boltanum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert