Þetta var ekki handbolti á köflum

Guðmundur Guðmundsson fórnar höndum.
Guðmundur Guðmundsson fórnar höndum. AFP

„Leikurinn tapaðist í fyrri hálfleik og á fyrstu mínútunum,“ sagði svekktur Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handbolta, í samtali við mbl.is eftir 28:31-tap fyrir Noregi á EM karla í kvöld. Norðmenn skoruðu sjö fyrstu mörkin og tókst Íslandi ekki að jafna eftir það, þrátt fyrir sterkan seinni hálfleik.  

„Ég tók leikhlé þegar það voru liðnar tvær mínútur og fjórtán sekúndur. Þá var staðan 4:0. Þessi byrjun sló okkur út af laginu og var mjög slæm. Byrjunin kom mér á óvart og kom svo öllu liðinu í koll og okkur öllum. Það er vont að gefa sjö marka forskot. Ég tók aftur leikhlé á fjórtándu mínútu og skipti nánast öllu liðinu út af. Þá fóru hlutirnir að ganga betur.“

Viktor Gísli Hallgrímsson kom virkilega sterkur inn í markið.
Viktor Gísli Hallgrímsson kom virkilega sterkur inn í markið. AFP

Eins og gefur að skilja var Guðmundur mun ánægðri með seinni hálfleikinn, sem Ísland vann 16:12. 

„Ég verð að hrósa liðinu fyrir að svara fyrir sig. Síðari hálfleikurinn er frábærlega vel leikinn af okkar hálfu. Vörn, sókn og markvarsla gekk mjög vel í seinni hálfleik. Það er það jákvæða sem maður tekur úr þessu en byrjunin var afleit,“ sagði Guðmundur, sem átti erfitt með að útskýra hvers vegna íslenska liðið byrjaði eins illa og raun bar vitni. 

„Ég get ekki gefið þér skýringu á því. Ég er að leita skýringa og það getur verið samblanda af ýmsu. Við förum yfir það innan hópsins. Það er ýmislegt sem kemur til greina; þreyta hjá sumum og svo framvegis.“

Fjárfesting til framtíðar

Táningarnir Viktor Gísli Hallgrímsson og Haukur Þrastarson komu mjög sterkir inn í leikinn og var Viktor Gísli að lokum valinn maður leiksins. 

Haukur Þrastarson kom með meiri kraft í íslenska liðið.
Haukur Þrastarson kom með meiri kraft í íslenska liðið. AFP

„Þeir voru frábærir. Þetta var dýrmæt reynsla fyrir þá í reynslubankann og fjárfesting til framtíðar líka. Við spiluðum eins og við ætluðum okkur í seinni hálfleik en það var ekki til staðar í fyrri,“ sagði Guðmundur, sem var ekki sáttur við spænska dómara leiksins. 

„Mér fannst þeir fá að hnoðast endalaust inn í vörnina og alltaf dæmt fríkast. Þetta var mjög einkennileg dómaralína. Þetta var ekki handbolti sem þeir spiluðu á köflum í seinni hálfleik.“

Sá ekki ástæðu til að setja Aron aftur inn á

Aron Pálmarsson átti alls ekki sinn besta leik í dag og var tekinn af velli um miðbik fyrri hálfleiks. Hann kom ekkert meira við sögu. 

Aron Pálmarsson átti ekki góðan dag.
Aron Pálmarsson átti ekki góðan dag. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

„Hann er heill heilsu,“ sagði Guðmundur og bætti svo við að hann hefði ekki séð ástæðu til þess að setja Aron inn á í seinni hálfleik. „Ég sá ekki ástæðu til þess. Alexander Petersson var svo orðinn mjög þreyttur,“ bætti hann við. 

Þurfum að láta verkin tala 

Guðmundur vildi ekki mikið fara út í lokaleik Íslands á mótinu, en hann verður gegn Svíum annað kvöld. Ísland gæ. „Við þurfum að láta verkin tala þá, ég vil ekki vera með neinar yfirlýsingar,“ sagði Guðmundur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert