Kári ósáttur við umræðuna um Aron: „Þetta er bara maður“

Kári Kristján Kristjánsson í færi í kvöld.
Kári Kristján Kristjánsson í færi í kvöld. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

„Það er ógeðslega leiðinlegt. Það er ógeðslega leiðinlegt að tapa handboltaleik,“ sagði svekktur Kári Kristján Kristjánsson, landsliðsmaður í handbolta, í samtali við RÚV eftir 25:32-tapið fyrir Svíþjóð í lokaleik Íslands á EM í kvöld. 

„Við flugum hátt, þetta var rússíbani, svo tókum við þétta dýfu og fengum í magann,“ bætti hann við. Kári lýsti svo yfir óánægju sinni yfir þeirri meðferð og umtali sem Aron Pálmarsson hefur fengið. 

„Maður hefur fylgst með umræðunni og fólk verður að setja þetta í samhengi og skilja að það er álag. Þetta eru sjö leikir á tólf dögum. Þetta er mikið á ákveðnum póstum hjá okkur og alveg gríðarlegt álag. 

Þurfum að drullast til að vera jákvæð

Mér er alveg sama hvernig þessu verður tekið sem ég ætla að segja: Að það sé verið að hnýta svona mikið í Aron Pálmarsson. Ég næ því ekki. Það er ætlast til þess að hann beri þetta algjörlega á herðunum. Við erum að spila af mjög mikilli ákefð í vörn og sókn og þetta er bara maður. Auðvitað viljum við öll að við stöndum okkur en það er fullvel í lagt hvernig umræðan er um hann. 

Aron Pálmarsson í leiknum í kvöld.
Aron Pálmarsson í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

Við erum með stráka sem eru með þeim efnilegri í Evrópu. Við þurfum að drullast til að vera jákvæð í þessu líka. Við erum með Hauk Þrastarson og við erum með Viktor. Þetta eru gríðarlega efnilegir strákar og svo voru aðrir að fá eldskírn á þessu móti sem eru að stíga upp og skila góðu hlutverki. Við verðum að rækta það. Þessir drengir mega ekki upplifa þetta mót eins og það hafi verið eintóm niðursveifla.“

Kári var svo spurður út í framtíð sína í íslensku landsliðstreyjunni. „Ef maður fær símtal að ofan, þá skoðar maður það,“ sagði Kári. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert