Króatar án lykilmanns í dag

Luka Cindric í leik með Króötum gegn Þjóðverjum á EM.
Luka Cindric í leik með Króötum gegn Þjóðverjum á EM. AFP

Einn af bestu handboltamönnum heims í dag, Luka Cindric, verður ekki með Króötum í dag þegar þeir mæta Spánverjum í úrslitaleik milliriðils I á Evrópumótinu í Vínarborg.

Cindric glímir við vöðvatognun í fæti og Lino Cervar þjálfari Króata ákvað að taka enga áhættu á að reyna að láta hann spila í dag en freista þess að hann verði tilbúinn í úrslitaleikina í Stokkhólmi um helgina.

Cindric, sem er 25 ára gamall leikstjórnandi, er samherji Arons Pálmarssonar hjá Barcelona og þeir hafa náð sérstaklega vel saman með Katalóníuliðinu í vetur. 

Króatar hafa unnið alla sína leiki í milliriðlinum, eins og Spánverjar, og liðin eru því bæði þegar komin í undanúrslitin þar sem annað þeirra mun mæta Noregi en hitt mun mæta Slóveníu eða Ungverjalandi. Viðureign Spánar og Króatíu hefst klukkan 15.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert