Stóraukinn áhugi norskra stráka á handbolta

Christian Berge og Göran Johannessen búa sig undir leikinn við …
Christian Berge og Göran Johannessen búa sig undir leikinn við Króata í kvöld. AFP

Árangur norska karlalandsliðsins í handknattleik síðustu ár hefur skilað sér í stórauknum áhuga meðal drengja á íþróttinni í Noregi.

Verdens Gang segir í umfjöllun í dag að drengjum sem æfi handbolta í Noregi hafi fjölgað um tæplega 50 prósent frá árinu 2008. Bilið á milli þeirra og stúlknanna hefur minnkað en handbolti hefur til þessa höfðað mun meira til stúlkna en drengja í landinu.

Um 67 prósent yngri iðkenda handknattleiks í Noregi eru stúlkur, enda hefur kvennalandslið þjóðarinnar verið í fremstu röð í heiminum um langt árabil. Samkvæmt tölum frá norska handknattleikssambandinu æfa um 92 þúsund stúlkur og um 45 þúsund drengir íþróttina í landinu.

Norska landsliðið leikur gegn Króatíu í undanúrslitum Evrópumótsins í Stokkhólmi í kvöld og hefur á síðustu árum leikið tvisvar í röð til úrslita um heimsmeistaratitilinn.

„Við vonum að frammistaða okkar á EM fái fleiri stráka til að spila handbolta. Þá þurfum við þjálfararnir að sjá til þess að handbolti sé það allra skemmtilegasta sem þeir gera,“ segir landsliðsþjálfarinn Christian Berge sem jafnframt hefur yfirumsjón með fjórum yngri landsliðum Noregs og þjálfar yngri flokk í heimabæ sínum Elverum.

„Útlitið er bjart. Til dæmis erum við með fjórtán efnilegar örvhentar skyttur í 2004-árganginum. Við fylgjumst grannt með meira en 100 leikmönnum sem eru fæddir 2003 og þar eigum við fjölmarga mismunandi leikmenn sem er gaman að fylgjast með. Við eigum fullt af efnilegum strákum í yngri landsliðunum,“ segir Berge við VG í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert