Þjóðverjar tóku fimmta sætið

Tobias Reichmann frá Þýskalandi.
Tobias Reichmann frá Þýskalandi. AFP

Þjóðverjar höfnuðu í 5. sæti á Evrópumótinu í handknattleik sem fram fer í Austurríki, Noregi og Svíþjóð með því að leggja Portúgal að velli, 29:27, í Stokkhólmi í dag. Portúgal lýkur því keppni í 6. sæti.

Bæði lið enduðu í 3. sæti í sínum milliriðlum og mættust því í leiknum um 5. sætið í dag. Þjóðverjar hófu leikinn betur, skoruðu þrjú af fyrstu fjórum mörkunum og voru með eins til tveggja marka forystu allan fyrri hálfleikinn. Munurinn varð svo mestur þrjú mörk, 18:15, snemma í síðari hálfleik en Portúgalar blésu þá til sóknar og náðu að jafna metin á 45. mínútu, 23:23, og skoruðu svo næsta mark til að komast yfir í fyrsta sinn.

Forysta Portúgala var þó skammlíf þótt þeir kæmust í tveggja marka forystu, 26:24, þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Julis Kühn skoraði í tvígang fyrir Þjóðverja til að jafna metin og þeir Kai Häfner og Jannik Kohlbacker skoruðu næstu mörk til að koma Þjóðverjum aftur í tveggja marka forystu. Henni héldu þeir lokamínúturnar og unnu 29:27.

Kühn var markahæstur Þjóðverja með sex mörk en Johannes Golla var honum næstur með fjögur. Alexis Borgers og Joao Ferraz voru markahæstir hjá Portúgal með fjögur mörk hvor en markaskorun beggja liða var nokkuð dreifð meðal leikmanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert