Mótherjar Vals betri í Evrópukeppninni en heima í Noregi

Jan Thomas Lauritzen, fyrrverandi landsliðsmaður Noregs, til hægri, þjálfar lið …
Jan Thomas Lauritzen, fyrrverandi landsliðsmaður Noregs, til hægri, þjálfar lið Halden. AP

Halden, andstæðingur Vals í átta liða úrslitum Áskorendabikars karla í handknattleik, hefur ekki átt  góðu gengi að fagna á þessu tímabili í norsku úrvalsdeildinni og er þar í áttunda sæti af tólf liðum þegar sautján umferðir hafa verið leiknar af 22.

Liðið er með 14 stig, tveimur sætum og þremur stigum frá umspilssæti deildarinnar en tvö neðstu liðin falla beint og það þriðja neðsta fer í umspil. Þetta er mjög svipuð staða og á undanförnum tveimur árum þar sem liðið hefur í bæði skiptin endað í níunda sæti deildarinnar.

Betur hefur gengið í Áskorendabikarnum en rétt eins og Valsmenn sat norska liðið hjá í fyrstu umferðinni. Í 32-liða úrslitum vann Halden tvo sigra á Kauno Azuolas frá Litháen, 32:28 og 37:29, en báðir leikirnir fóru fram í Noregi.

Í sextán liða úrslitum vann síðan Halden góðan útisigur á rússneska liðinu Neva í Pétursborg, 23:21, á sunnudaginn, eftir að hafa tapað fyrri leiknum á sínum heimavelli, 23:24.

Þjálfari Halden er Jan Thomas Lauritzen, fyrrverandi landsliðsmaður Noregs til fimmtán ára, sem lék m.a. með þýsku liðunum Flensburg og Essen á sínum tíma en hjá Essen var hann samherji Guðjóns Vals Sigurðssonar um skeið.

Þrír erlendir leikmenn eru í liði Halden, Danirnir Martin Vilstrup Andersen og Rasmus Molgaard Lilholt og bosníski markvörðurinn Dragan Kondic.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert