Frá Færeyjum til Noregs

Einar Jónsson á hliðarlínunni hjá Stjörnunni árið 2018.
Einar Jónsson á hliðarlínunni hjá Stjörnunni árið 2018. mbl.is/Kristinn Magnússon

Norska félagið Bergsøy tilkynnti á Facebooksíðu sinni í dag að Einar Jónsson hefði verið ráðinn þjálfari meistaraflokks karla í handknattleik.  

Þar kemur jafnframt fram að Einar hafi gert þriggja ára samning við félagið en Bergsøy er í C-deildinni í Noregi og var um miðjan sinn riðil þegar keppni var hætt á dögunum. Liðið er frá bænum Fosnavåg á eyjunni Bergsøya, skammt frá Álasundi á vesturströnd Noregs.

Einar kemur frá Færeyjum þar sem hann lét nýlega af störfum hjá H71 eftir að hafa stýrt meistaraflokksliðum þess eitt tímabil. Einar naut velgengni í Færeyjum en karlalið H71 varð tvöfaldur meistari og kvennaliðið bikarmeistari en það var auk þess í efsta sæti deildarinnar þegar hún var blásin af vegna kórónaveirunnar. 

Einar er ekki ókunnur norskum handknattleik því hann stýrði kvennaliði Molde í C og B-deildum 2013 - 2015. Fór liðið þá upp um tvær deildir. 

Hér heima hefur Einar þjálfað meistaraflokksliðin hjá Fram, kvennalið ÍBV og karlalið Stjörnunnar og Gróttu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert