Landsliðsmaður tekur á sig 70% launalækkun

Aron Pálmarsson hefur leikið með Barcelona frá árinu 2017.
Aron Pálmarsson hefur leikið með Barcelona frá árinu 2017. Ljósmynd/Barcelona

Aron Pálmarsson, landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður Barcelona á Spáni, hefur þurft að taka á sig 70% launalækkun vegna kórónuveirufaraldsins sem nú herjar á heimsbyggðina en það eru spænskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Útgjöld spænska stórliðsins eru mikil og á meðan innkoman er lítil sem engin þarf félagið að draga saman seglin.

Samkvæmt fréttum frá Spáni hafa öll lið innan félagsins þurft að taka á sig 70% launalækkun en leikmenn knattspyrnuliðs Barcelona voru ekki sáttir við þessar tillögur forseta félagsins Josep Bartomeu. Hann reynir nú að semja við fyrirliða karlaliðsins, þá Lionel Messi, Sergio Busquets, Gerard Piqué og Sergi Roberto.

Spænskir fjölmiðlar greina frá því að leikmenn knattspyrnuliðsins séu tilbúnir að taka á sig í kringum 50% launalækkun en kórónuveiran hefur farið illa með Spánverja. Þar eru rúmlega 56.000 manns smitaðir af veirunni og þá er tala látinna komin upp í 4.089 manns. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert