Feluleiknum loks lokið

Kristinn Björgúlfsson tekur við karlaliði ÍR.
Kristinn Björgúlfsson tekur við karlaliði ÍR. Ljósmynd/ÍR

Breiðhyltingurinn Kristinn Björgúlfsson fær það erfiða hlutverk að stýra karlaliði ÍR í handknattleik á næstu leiktíð en hann tekur við þjálfarastarfinu af Bjarna Fritzsyni. Kristinn hefur stýrt kvennaliði ÍR á þessari leiktíð, ásamt því að vera aðstoðarþjálfari karlaliðsins, og hann veit því að hverju hann gengur.

Kristinn er uppalinn hjá ÍR en hann er 38 ára gamall. Félagið tilkynnti á dögunum að það þyrfti að draga saman seglin vegna mikilla fjárhagsörðugleika og í vikunni var svo tilkynnt að þrír lykilmenn liðsins væru á förum til Aftureldingar í Mosfellsbæ þegar samningar þeirra rynnu út í sumar.

„Markmiðið hjá mér var alltaf að taka við karlaliði ÍR einn daginn en ég átti ekki alveg von á því að það yrði akkúrat núna,“ sagði Kristinn hvergi banginn í samtali við Morgunblaðið í gær.

Að undirbúa nýtt tímabil með kvennaliði sem var lagt niður

„Ég var í raun bara byrjaður að undirbúa nýtt tímabil með kvennaliðinu þegar þetta kom fyrst upp. Aðdragandinn var mjög stuttur og ég var boðaður á fund á sunnudaginn þar sem ég fékk þær fréttir að félagið hefði ákveðið að draga saman seglin. Því hefði verið tekin ákvörðun um að senda ekki kvennaliðið til keppni á næstu leiktíð.

Á mánudeginum var ég svo boðaður á annan fund þar sem mér var boðið að taka við karlaliðinu þannig að hlutirnir hafa gerst ansi hratt undanfarna daga. Ég þekki strákana mjög vel og er búinn að vera með þeim í nánast allan vetur sem aðstoðarþjálfari. Að vera aðstoðarþjálfari gefur manni aukið tækifæri til þess að fylgjast með liðinu, án þess kannski að þurfa að bera þungan af öllu batteríinu, og ég veit því að hverju ég geng með alla leikmenn liðsins.“

Á að hlúa vel að stelpunum

Kristinn stýrði kvennaliði ÍR í 1. deildinni í vetur, Grill 66-deildinni, en meistaraflokkurinn verður lagður niður á næstu leiktíð vegna fjárhagstöðunnar í Breiðholtinu.

„Vissulega var maður svekktur þegar maður heyrði af því að það ætti að leggja meistaraflokkinn niður en það er ekki rekstargrundvöllur fyrir því að halda uppi meistaraflokksliði í kvennaflokki á meðan liðið er svona ungt. Þetta var ekki mín ákvörðun en meirihlutinn af þessum flottu og frambærilegu stelpum eru enn þá í 3. flokki. Þær eru flestar uppaldar hjá félaginu og markmiðið núna er að ráða inn alvöruþjálfara í 3. flokkinn og hlúa vel að þeim. Planið er svo að byggja þessar stelpur upp og gera allt svo þær verði tilbúnar tímabilið 2021/2022 í alvörumeistaraflokksbolta.“

Viðtali við Kristin í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert