Kórónuveiran stjórnar öllu

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari Íslands í handknattleik.
Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari Íslands í handknattleik. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari karlalandsliðs Íslands í handknattleik, framlengdi í dag samning sinn við þýska 1. deildarfélagið Melsungen. Guðmundur tók við liðinu í lok febrúar á þessu og skrifaði undir samning sem gilti út júní 2020 en hann hefur nú framlengt samning sinn til sumarsins 2021.

Fyrstu vikur Guðmundur í starfi voru vægast sagt sérstakar. Guðmundur stýrði sínum fyrsta leik sem þjálfari Melsungen gegn Bjerringbro-Silkeborg í EHF-bikarnum en þar vann þýska liðið tveggja marka sigur, 35:33. Viku síðar var allur handbolti svo blásinn af í Evrópu vegna kórónuveirufaraldsins sem nú herjar á heimsbyggðina.

„Ég fór út í lok febrúar og það var afskaplega vel tekið á móti mér þarna, bæði af forráðamönnum félagsins sem og leikmönnunum. Ég átti að renna út á samning í júní 2020 en þeir ákváðu svo að bjóða mér áframhaldandi starf á dögunum sem ég þáði því mér leið mjög vel þarna. Ég sagði það alveg frá því að ég tók við liðinu að þetta væri mjög spennandi verkefni. Liðið var komið í fjögurra liða úrslit bikarkeppninnar eða "Final Four" eins og það heitir hérna úti. Liðið var í riðlakeppni EHF-bikarsins og þá var líka góður möguleiki á því að komast ofar í deildinni. Melsungen er stórlið á alþjóðlegan mælikvarða en þeir hafa einfaldlega ekki náð þeim árangri undanfarið sem stefnt var það. Þetta er hins vegar félag sem hefur alla burði til þess að ná langt.“

Guðmundur Guðmundsson ásamt aðstoðarþjálfurum sínum hjá íslenska landsliðinu, þeim Einari …
Guðmundur Guðmundsson ásamt aðstoðarþjálfurum sínum hjá íslenska landsliðinu, þeim Einari Andra Einarssyni og Gunnari Magnússyni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hugmyndir sem nýtast landsliðinu

Fyrstu dagar Guðmundur í starfi voru afar krefjandi en landsliðsþjálfarinn ítrekar að þrátt fyrir að hann hafi skrifað undir árs framlengingu á samningi sínum við þýska 1. deildarfélagið að þá muni það ekki hafa áhrif á starf hans með íslenska landsliðinu.

„Þegar að ég var nýkominn út spiluðum við þrjá leiki á einni viku þannig að þetta var gríðarlegt álag þessa fyrstu daga. Svo fengum við smá pásu sem var afar kærkomin. Planið var að nýta hana sem best en þá var þessi veira akkúrat að ná sér á flug í Þýskalandi eins og annars staðar. Stuttu síðar var bara allt blásið af og handboltinn fór í dvala. Þegar kemur að landsliðinu þá tel ég að þetta muni ekki hafa nein áhrif á starf mitt sem landsliðsþjálfari. Ég hef gert þetta áður, bæði með GOG 2009 og svo Rhein-Neckar Löwen árið 2010, og landsliðinu gekk mjög vel á þessum tíma sem dæmi. Ég er að starfa í sterkustu deild í heimi og þar sér maður hluti sem gætu klárlega nýst landsliðinu mjög vel.“

Guðmundur Þórður Guðmundsson hefur stýrt íslenska karlalandsliðinu frá árinu 2018.
Guðmundur Þórður Guðmundsson hefur stýrt íslenska karlalandsliðinu frá árinu 2018. Kristinn Magnússon

Svartsýnn á að tímabilið klárist

Guðmundur á ekki von á því að tímabilið verði klárað í þýsku 1. deildinni en alls eru sjö umferðir eftir af tímabilinu þar í landi.

„Satt best að segja þá reikna ég fastlega með því að tímabilinu verði bara slaufað. Kórónuveiran stýrir öllu og þó að hinar ýmsu deildir eða sambönd hafi einhvern vilja til þess að gera eithvað þá er það veiran og yfirvöld í hverju landi fyrir sig sem taka lokaákvörðun um hvað sé best að gera. Það veit enginn hvað mun taka langan tíma að ráða niðurlögum kórónuveirunnar og ég tel að tímabilið verði flautað af og að það verði bara byrjað á nýjum forsendum í sumar.“

Guðmundur Þórður Guðmundsson á hliðarlínunni á Evrópumótinu í handknattleik sem …
Guðmundur Þórður Guðmundsson á hliðarlínunni á Evrópumótinu í handknattleik sem fram fór í janúar á þessu ári. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

Þurfa tvær vikur í undirbúning

Guðmundur er nú kominn aftur til Íslands en hann fjarstýrir liðinu að heiman þessa dagana. Hann ítrekar að ef ákveðið verði að hefja leik í deildinni á nýjan leik á næstu vikum þurfi liðið að lágmarki tvær vikur í almennan undirbúning áður en hægt sé að hefja leik.

„Ég kom heim þegar maður sá í hvað stefndi í Evrópu og ég þurfti eins og aðrir að fara í hálfs mánaða sóttkví eftir að ég kom fyrst til landsins. Ég fjarstýri svo bara liðinu héðan frá Íslandi eins og staðan er í dag. Við erum með þrekþjálfara sem gerir ákveðnar æfingaáætlanir til tveggja vikna í senn og það prógram samanstendur aðallega af hlaupa- og styrktaræfingum sem menn geta í raun gert í garðinum í heima hjá sér. Við æfum mjög vel, þrátt fyrir að deildin sé í pásu, og við getum fylgst vel með öllu þar sem allir leikmenn liðsins eru með púlsúr á meðan þeir æfa. Að sama skapi erum við ekki að fara að mæta beint út á völl ef það verður ákveðið að spila. Menn þurfa lágmark tvær vikur í undirbúning, annað væri óeðlilegt. Vissulega eru leikmenn liðsins í líkamlegu standi en þegar að þú æfir ekki handbolta á hverjum degi þá er ekki hægt að ætlast til þess að þú mætir beint út á völl og byrjir að spila eftir nokkra mánaða fjarveru,“ bætti Guðmundur við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert