„Ekki eftir neinu að bíða“

Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, lengst til hægri.
Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, lengst til hægri. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þegar við lesum í þá stöðu sem yfirvöld gefa upp varðandi þróunina á þessu samkomubanni þá er alveg eins gott að stoppa Íslandsmótið á þessum tímapunkti,“ sagði Guðmundur B. Ólafsson, formaður Handknattleikssambands Íslands, þegar mbl.is hafði samband við hann. Stjórn HSÍ ákvað að dag að aflýsa frekari keppni á Íslandsmótinu vegna kórónuveirunnar.

„Þótt aflétt verði í skrefum frá 4. maí þá mun það ekki hafa áhrif á 2 metra fjarlægðarregluna og þá geta liðin ekki æft. Þá verðum við komin fram í miðjan maí ef sú regla heldur sér, jafnvel þótt fjöldi í samkomubanninu kunni að verða aukinn upp í 50 eða 100 manns. Liðin geta þá ekki æft fyrir en eftir miðjan maí í fyrsta lagi. Okkar álitsgjafar segja að það þurfi 2-3 vikur til að koma leikmönnum í nógu gott form sem kemur í veg fyrir meiðsli. Ef við hefðum haldið áfram þá hefði leikjaálagið vætanlega verið nokkuð og leikmenn þurfa því undirbúning. 

Þá hefðum við komin fram í júní og félagaskiptaglugginn er 1. júní. Þá eru leikmenn og þjálfarar komnir í önnur lið í einhverjum tilfellum. Við sáum því ekki fram á að geta gert þetta af neinu viti í júni. Og við vitum við ekki einu sinni hvort samkomubanni yrði aflétt. Vandamálin hefðu því bara haldið áfram,“ sagði Guðmundur og segir að aðildafélögin hafi viljað fá svör um hvort þau eigi að halda starfseminni gangandi með tímabilið 2019-2020 í huga. 

„Við teiknuðum þetta upp á alla vegu og skoðuðum ýmsar útfærslur en þetta er niðurstaðan. Í raun var ekki eftir neinu að bíða og félögin vilja fá svör til að vita hvort þau eigi að halda liðum og starfssemi gangandi. Þegar samkomubannið var fært til 4. maí þá var orðið líklegt að þetta yrði niðurstaðan.

Haldin var stjórnarfundur í hádeginu og þar ræddum við útfærsluren það var alger einhugur í stjórninni að fara þessa leið. Formannafundur var haldin seinni partinn í dag og þar voru aðeins skiptar skoðanir en flest félögin vildu aðallega fá lokasvar fyrr en seinna. Í ljósi þeirrar umræðu ákváðum þetta skref.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert