Sigursæll markvörður hættir í sumar

Arpad Sterbik í landsleik með Spáni.
Arpad Sterbik í landsleik með Spáni. AFP

Einn þekktasti handknattleiksmarkvörður síðari ára, Arpad Sterbik, hefur tilkynnt að hann leggi skóna á hilluna þegar yfirstandandi keppnistímabili lýkur.

Sterbik sem er fertugur að aldri, fæddist í Júgóslavíu árið 1979 en er með þrefalt ríkisfang, serbneskt, ungverskt og spænskt. Hann hefur leikið fyrir landslið Júgóslavíu, Serbíu/Svartfjallalands og Spánar.

Síðustu tvö árin hefur Sterbik leikið með ungverska stórliðinu Veszprém en þar lék hann einnig í þrjú ár snemma á ferlinum. Hann var samherji Ólafs Stefánssonar hjá sigursælu liði Ciudad Real á Spáni og lék þar í sjö ár en með Atlético Madrid og Barcelona eftir það og síðan í fjögur ár með Vardar Skopje.

Meistaratitlarnir á Spáni eru sjö talsins, fjórir í Ungverjalandi og fjórir í Makedóníu, og þá hefur hann fjórum sinnum unnið Meistaradeild Evrópu, síðast 2017 með Vardar Skopje. Sterbik varð heimsmeistari 2013 og Evrópumeistari 2018 með landsliði Spánar og vann áður tvenn bronsverðlaun á HM með landsliði Júgóslavíu.

„Ég hafði tekið ákvörðun áður en kórónuveirufarsóttin skall á. En hún ýtti á eftir mér. Það  tekur tíma á mínum aldri að hefja æfingar á ný, til að komast aftur á þann stað sem maður vill vera,“ sagði Serbik á vef Evrópska handknattleikssambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert