Ýmislegt sem gekk á í vetur

Snorri Steinn Guðjónsson er þjálfari Vals.
Snorri Steinn Guðjónsson er þjálfari Vals. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þónokkur óvissa ríkir hjá handknattleiksþjálfaranum Snorra Steini Guðjónssyni og lærisveinum hans í karlaliði Vals í handknattleik. Liðið var krýnt deildarmeistari 2020 á mánudaginn síðasta þegar Handknattleikssamband Íslands, HSÍ, tilkynnti að ákveðið hefði verið að aflýsa restinni af tímabilinu í handboltanum vegna kórónuveirunnar sem nú geisar.

Valur var í efsta sæti deildarinnar með 30 stig þegar tveir leikir voru eftir af tímabilinu, tveimur stigum meira en FH sem var með 28 stig, en öll liðin í deildinni höfðu leikið tuttugu leiki þegar ákveðið var að hætta keppni.

Tímabili Valsmanna er hins vegar ekki lokið því liðið er komið áfram í átta liða úrslit Áskorendabikars Evrópu þar sem liðið mætir Halden frá Noregi en stefnt er að því að sá leikur muni fara fram dagana 1. til 7. júní.

„Ég get ekki sagt að ákvörðun HSÍ um að blása mótið af hafi komið mér á óvart, “ sagði Snorri Steinn í samtali við Morgunblaðið í gær. „Þetta lá í loftinu og það kæmi manni svo sem heldur ekkert á óvart ef Evrópukeppnin yrði blásin af líka. Hvað svo sem verður þá þarf ég alltaf að undirbúa liðið eitthvað en maður breytir kannski aðeins um takt núna og strákarnir eru ekki komnir í neitt sumarfrí, hvort sem við spilum þessa Evrópuleiki eða ekki.“

Fjarþjálfunin gengið vel

Vegna samkomubannsins sem ríkir á Íslandi hefur Snorri Steinn þurft að fjarstýra liðinu undanfarnar vikur. Hann treystir sínum leikmönnum hins vegar til þess að æfa af krafti, jafnvel þótt það geti verið ansi krefjandi á þessum tímum.

„Þetta eru mjög sérstakir tímar og aðstæður sem við erum að eiga við en þetta hefur gengið. Menn fengu ákveðin fyrirmæli sem þeir áttu að fara eftir. Svo kemur það bara í ljós, þegar við byrjum aftur að æfa, hvar menn eru virkilega staddir. Við þjálfararnir höfum reynt að fylgjast vel með þeim og fengum til að mynda æfingavesti sem heldur utan um alla tölfræði til þess að fylgjast með ákefðinni hjá þeim. Eftir sumarfrí kemur oftast fljótlega í ljós hverjir hafa verið duglegastir að æfa í pásunni og ég á ekki von á því að það verði neitt öðruvísi. Þeir sem hafa svo verið duglegastir að æfa fá það oftast minna í bakið þegar allt fer af stað aftur.“

Viðtalið í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert