Fögnuðum en var voðalega steikt

Janus Daði Smárason fer til Göppingen í Þýskalandi í sumar …
Janus Daði Smárason fer til Göppingen í Þýskalandi í sumar og kveður Aalborg sem meistari þótt tímabilið í Danmörku hafi verið blásið af. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

„Alveg hrikalega langt frá því,“ svaraði Janus Daði Smárason, landsliðsmaður í handbolta, aðspurður hvort honum liði eins og hann hefði orðið danskur meistari. Janus er lykilmaður hjá Aalborg, sem var krýnt danskur meistari á þriðjudag, þar sem tímabilinu í Danmörku var aflýst vegna kórónuveirunnar.

„Ég fór á fund með öllu liðinu og framkvæmdastjóranum og við vorum að fagna þessu en þetta var voðalega steikt,“ sagði Janus við Morgunblaðið en ásamt honum eru Ómar Ingi Magnússon og aðstoðarþjálfarinn Arnór Atlason danskir meistarar með Álaborgarliðinu. Liðið var þegar orðið deildarmeistari, var með 42 stig þegar tveimur umferðum var ólokið en GOG með 34 stig og Tvis Holstebro með 33 voru í næstu tveimur sætum.

Fer til Göppingen í sumar

„Það góða við þetta er að við vorum allavega krýndir meistarar og liðið fær að spila í Meistaradeildinni á næstu leiktíð. Það er mun skárra en ef tímabilið hefði verið strikað út. Ég er hins vegar á förum frá klúbbnum svo ég fæ ekki sjálfur að spila í Meistaradeildinni,“ sagði Janus, en hann skrifaði undir samning við þýska liðið Göppingen á síðasta ári og gengur í raðir félagsins í júlí. Hann er svekktur yfir að fá ekki að spila í úrslitakeppninni í Danmörku einu sinni til viðbótar.

„Ég var orðinn mjög spenntur fyrir úrslitakeppninni en úr því sem komið var vissi ég að við værum aldrei að fara að klára keppnina. Þetta var kannski það besta í stöðunni í ljósi þess. Við vorum með mjög sterkt lið í ár og þetta á að vera skemmtilegasti tími ársins. Þetta er auðvitað hundsvekkjandi,“ sagði Janus.

Sjá viðtal við Janus í heild í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert