Stórstjarna í stað Sigvalda

Luc Abalo vippar yfir Björgvin Pál Gústavsson í undanúrslitum á …
Luc Abalo vippar yfir Björgvin Pál Gústavsson í undanúrslitum á EM 2010. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Afar óvænt tíðindi berast úr handboltaheiminum en norska liðið Elverum hefur nælt í tvöfaldan ólympíumeistara í handknattleik, Luc „skywalker“ Abalo. 

Þar sem Abalo hefur mest spilað í hægra horni má segja að hann leysi Íslendinginn Sigvalda Björn Guðjónsson af hólmi sem hafði félagaskipti frá Elverum yfir í Kielce í Póllandi. 

Luc Abalo er 35 ára gamall Frakki, verður 36 í september, og hefur verið á meðal sigursælustu leikmanna heims í áraraðir. Hann var í liði Frakka sem unnu Íslendinga í úrslitaleiknum á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og var í sigurliði Frakka sem aftur vann ólympíugull árið 2012 í London. Abalo er einnig margfaldur heims- og Evrópumeistari með Frökkum. 

Abalo hefur verið í heimalandinu hjá Paris St. Germain síðan 2012. Hann hafði hugsað sér að ljúka handboltaferlinum á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar. Þeim var hins vegar frestað um ár. Svo virðist sem Abalo og Nikola Karabatic hafi ákveðið að taka slaginn með Frökkum á leikunum á næsta ári. Abalo hafði hins vegar tilkynnt Parísarliðinu um ákvörðun sína og þeir höfðu þegar náð í eftirmann hans, Ferran Sole. Abalo var því að leita sér að liði en líklega kemur mörgum á óvart að hann endi á Norðurlöndunum. 

Franska meistaraliðið París SG þarf að sjá á eftir reyndum mönnum á milli tímabila. Eins og Íslendingar þekkja er Guðjón Valur Sigurðsson hættur en auk þess er Sander Sagosen farinn til Kiel. 

Abalo hefur orðið landsmeistari með mörgum Íslendingum því hann varð einnig meistari með Róberti Gunnarssyni og Ásgeiri Erni Hallgrímssyni hjá París, spænskur meistari með Ólafi Stefánssyni hjá Ciudad Real og franskur meistari með Ragnari Óskarssyni hjá Ivry. 

Abalo horfir á eftir Guðjóni Val Sigurðssyni, samherja sínum á …
Abalo horfir á eftir Guðjóni Val Sigurðssyni, samherja sínum á síðasta tímabili, á Ólympíuleikunum í London 2012. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert