Dansað á götum Santander

Kristján Arason fékk ýsmar vegtyllur á sínum ferli sem handknattleiksmaður …
Kristján Arason fékk ýsmar vegtyllur á sínum ferli sem handknattleiksmaður og var til að mynda valinn í heimsliðið árið 1989. Hér tekur hann við viðurkenningu ásamt traustum samherjum sínum í landsliðinu: Guðmundi Hrafnkelssyni, Guðmundi Þ. Guðmundssyni, Einari Þorvarðarsyni og Þorgils Óttari Mathiesen. Morgunblaðið/Bjarni

Þrjátíu ár eru í dag liðin frá því Hafnfirðingurinn Kristján Arason varð Evrópumeistari í handknattleik með spænska liðinu Teka Santander. 

Þar með er Kristján fyrsti Íslendingurinn sem verður Evrópumeistari í hópíþróttum en nokkrir íslenskir handbolta- og fótboltamenn höfðu náð í úrslit en tapað þegar þangað var komið. Að sjálfsögðu langflestir á einu bretti þegar Valur lék til úrslita árið 1980. 

Teka Santander sigraði í Evrópukeppni bikarhafa. Í úrslitum mætti liðið sænska liðinu Drott sem hafði galdramanninn Magnus Andersson í sínum röðum. Keppt var heima og að heiman og höfðu Svíarnir tveggja marka forskot að loknum fyrri leiknum í Halmstad sem þeir unnu 24:22.  

Kristján Arason og Mats Olsson fagna sigrinum.
Kristján Arason og Mats Olsson fagna sigrinum. Morgunblaðið

Spænska liðið hafði betur í síðari leiknum 23:18 og skoraði Kristján þá 3 mörk. Lék hann mjög vel í vörn og sókn en sagði frá því í viðtölum þegar sigurinn var í höfn að hann hefði ekki verið viss um að geta beitt sér af alvöru í leiknum vegna meiðsla í öxl.

Vörn Teka Santander var mjög sterk í leiknum og þar var Kristján í stóru hlutverki. Sænski markvörðurinn, Mats Olsson, reyndist svo samlöndum sínum í Drott afar erfiður en Olsson varði mark spænska liðsins og var einn sá allra besti í heimi á þessum árum.

Atli Hilmarsson skrifaði um leikinn frá Spáni fyrir Morgunblaðið og sagði Olsson hafa verið besta mann vallarins. 

Kristján Arason brýnir samherja sinn í úrslitaleiknum.
Kristján Arason brýnir samherja sinn í úrslitaleiknum. Morgunblaðið


 

„Við höfum slegið út fjögur af bestu liðum Evrópu og eigum þetta skilið — við erum með besta liðið,“ sagði Kristján í samtali við Morgunblaðið. 

Morgunblaðið 30. maí 1990
Morgunblaðið 30. maí 1990

Mikil stemning var fyrir liðinu í Santander sem er norðarlega á Spáni. Liðið varð spænskur bikarmeistari árið áður og var það fyrsti titill félagsins í handknattleik. Markvisst hafði verið sett saman samkeppnishæft lið með því að fá menn eins og Kristján og Olsson til félagsins.

Uppselt var á leikinn og en höllin tók um fjögur þúsund manns. Forráðamenn liðsins sögðu að þeir hefðu hæglega getað selt fimmtán þúsund miða á úrslitaleikinn. 

 „Í kjölfar sigursins brutust að vonum út mikil fagnaðarlæti í borginni og í alla nótt hefur fólk í Santander dansað á götum úti og enn þá eru bílaeigendur að þeyta bílflautur sínar,“ sagði Kristján í samtali við Dagblaðið Vísi þegar Jón Kristján Sigurðsson náði tali af honum morguninn eftir. 

Kristján Arason í úrslitaleiknum.
Kristján Arason í úrslitaleiknum. Morgunblaðið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert